154. löggjafarþing — 94. fundur,  11. apr. 2024.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

922. mál
[16:14]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, nr. 88/2011. Þær breytingar sem lagðar eru til á lögunum varða annars vegar réttindagæslumenn fatlaðs fólks og hins vegar persónulega talsmenn.

Árið 2011 voru sett ný lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Nú, 13 árum síðar, hefur fengist ágæt reynsla á lögin og mikil þróun hefur orðið í málaflokki fatlaðs fólks. Í ljós hefur komið að þörf er á að skýra betur tiltekin atriði laganna og gera breytingar á þeim í ljósi fenginnar reynslu. Þá hefur forsætisráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi um Mannréttindastofnun Íslands sem gerir m.a. ráð fyrir að réttindagæslumenn færist undir nýja og sjálfstæða mannréttindastofnun og að eftirlit með samningum um persónulega talsmenn færist til sýslumanna.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miða að því að skýra ákvæði um hlutverk og verkferla í kringum réttindagæslumenn og persónulega talsmenn og gera þeim þannig betur kleift að sinna hlutverki sínu. Með því verði réttarvernd fatlaðs fólks styrkt og því tryggður viðeigandi stuðningur í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lögfesta á á yfirstandandi kjörtímabili samkvæmt stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

Þær breytingar sem lagðar eru til á ákvæðum um réttindagæslumenn varða annars vegar að taka út tilvísun til svæðisskiptingar réttindagæslumanna og hins vegar að skýra hvert hlutverk þeirra er og hvar því sleppir. Lagt er til að tilvísun til svæðisskiptingar falli brott þar sem ráðgert er að réttindagæslumenn flytjist til nýrrar, sjálfstæðrar mannréttindastofnunar, samkvæmt frumvarpi forsætisráðherra um Mannréttindastofnun Íslands, og verði ekki lengur svæðisbundnir. Með því verði réttindagæslumenn ekki bundnir við tiltekið svæði samkvæmt lögum og þeim ljáð meira svigrúm til að sinna málum og skipta þeim með sér eftir því sem hentar hverju sinni. Þrátt fyrir þessa breytingu munu réttindagæslumenn áfram veita þjónustu um land allt og eftir atvikum vera með fastar starfsstöðvar á landsbyggðinni.

Þá eru lagðar til breytingar á ákvæðum um réttindagæslumenn með það fyrir augum að árétta að hlutverk þeirra sé að veita fötluðu fólki nauðsynlegan stuðning við gæslu réttinda sinna, í samræmi við ákvæði 3. mgr. 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hlutverk réttindagæslumanns er og verður áfram að kanna vilja fatlaðra einstaklinga og veita þeim stuðning við nýtingu löghæfis síns eftir því sem þörf er á. Að auki er til áréttingar lagt til að kveða á um að réttindagæslumenn taki ekki til meðferðar ágreining á milli einstaklinga og að þeir endurskoði ekki ákvarðanir stjórnvalda.

Breytingar á ákvæðum um persónulega talsmenn felast í því að kveðið verði nánar á um hlutverk og verklag í kringum persónulega talsmenn. Sérstaklega má þar nefna að lagt er til að útvíkkað verði við hverja sé haft samráð við val á persónulegum talsmanni og hvenær það sé gert, nánar verði kveðið á um hvað skuli koma fram í samkomulagi um persónulegan talsmann og hvernig haga skuli endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Gert er ráð fyrir að kveðið verði á um nánari útfærslu á endurgreiðslu kostnaðar í reglugerð, svo sem viðmið um hvað fáist endurgreitt. Einnig verði aðkoma réttindagæslumanns að samkomulagi skýrð í þeim tilvikum þegar fatlaður einstaklingur getur ekki undirritað samkomulagið og kveðið á um aðkomu sýslumanns að samkomulagi um persónulegan talsmann. Auk þess er lagt til að kveðið verði á um viðbótarskilyrði sem einstaklingar þurfa að uppfylla til að geta orðið persónulegir talsmenn, annars vegar varðandi lögræði og hins vegar að sýslumaður meti hæfi viðkomandi til að verða persónulegur talsmaður hafi hann hlotið refsidóm fyrir brot á ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot, auðgunarbrot, manndráp eða stórfellda líkamsárás.

Þannig er lagt til að sýslumaður meti hvort refsidómur einstaklings hafi áhrif á hæfi hans til að verða persónulegur talsmaður tiltekins einstaklings en að ekki sé girt fyrir að viðkomandi verði persónulegur talsmaður þrátt fyrir slíkan refsidóm. Markmið breytingarinnar er að koma í veg fyrir misnotkun á hinum fatlaða einstaklingi, sbr. 4. mgr. 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, án þess þó að takmarka um of rétt fatlaðs einstaklings til að velja sér talsmann sem hann treystir og vill að sinni því hlutverki. Tilgangur persónulegra talsmanna er að styðja fatlaðan einstakling við að nýta löghæfi sitt og verður að virða einstaklingsbundið sjálfræði og hæfi hins fatlaða einstaklings til að taka ákvarðanir, einnig hvað varðar val á persónulegum talsmanni. Af því leiðir að gæta verður að því að framangreint skilyrði komi aðeins í veg fyrir að einstaklingur verði persónulegur talsmaður ef sýnt er að refsidómur sem hann hefur hlotið hafi þýðingu í þeim aðstæðum sem um ræðir. Gæti það t.d. komið til skoðunar ef hann hefur hlotið refsidóm fyrir auðgunarbrot og samkomulag um aðstoð persónulegs talsmanns varðar ráðstöfun fjármuna.

Með þeim breytingum sem lagðar eru fram í frumvarpinu er lögð áhersla á að vilji hins fatlaða einstaklings ráði för, eins og skýrt kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þannig er í fyrstu almennu athugasemd nefndar Sameinuðu þjóðanna um samninginn lögð áhersla á að besta túlkun á vilja og óskum skuli koma í stað ákvörðunar um það sem sé viðkomandi fyrir bestu. Þess vegna er lagt til að í lok 3. mgr. 7. gr. laganna sé kveðið á um að allar ráðstafanir persónulegs talsmanns skuli gerðar í samræmi við vilja og óskir hins fatlaða einstaklings í stað þess að þær skuli gerðar með hagsmuni hans að leiðarljósi, eins og núverandi orðalag hljóðar.

Einnig er lagt til að í nýju ákvæði verði kveðið á um eftirlit með persónulegum talsmönnum. Markmiðið með þessu nýmæli er að skýra í hverju eftirlit með persónulegum talsmönnum felst, tryggja heimildir eftirlitsaðila til að kalla eftir gögnum og upplýsingum og auka þannig réttarvernd fatlaðs fólks sem nýtur stuðnings við beitingu löghæfis síns. Er það í samræmi við 4. mgr. 12. gr. Samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem kveðið er á um að allar ráðstafanir varðandi nýtingu löghæfis feli í sér viðeigandi og árangursríka vernd til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög.

Að lokum er lagt til að kveðið verði á um að persónulegur talsmaður geti fengið aðgang að fleiri en einum sérgreindum reikningi, eins og gildandi lög gera ráð fyrir, taki samkomulag um aðstoð til ráðstöfunar fjármuna, en gildandi fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið helstu þætti í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks. Frumvarpið var unnið í samráði við réttindagæslu fatlaðs fólks, hagsmunasamtök þess og dómsmálaráðuneytið. Réttindagæslumenn og persónulegir talsmenn gegna mikilvægu hlutverki í lífi þess fólks sem ekki getur gætt réttinda sinna án stuðnings. Ég tel að þessar breytingar séu mikilvægur þáttur í því að gera þjónustu þeirra markvissari og skilvirkari auk þess sem betur verður tryggt að skoðanir notenda séu virtar.

Að lokinni umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.