154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

breyting á búvörulögum.

[15:31]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði bara að kasta inn í umræðuna hérna alveg í lokin að mér hefur fundist það svona almennt vera vandamál þegar kemur að þessu vantrausti til þingsins og það sem ég hef tekið eftir þegar kemur að því hvernig þessi meiri hluti vinnur, öðruvísi en aðrir meiri hlutar sem ég hef reynslu af, að það virðist ekki vera hægt að afgreiða ríkisstjórnarmál út úr nefnd án þess að vera í svo þéttu samráði við ráðuneytin einmitt að yfirleitt þá eru ráðuneytin bara að skrifa breytingartillögurnar fyrir meiri hlutann frekar en þingið. Þessu hef ég orðið vitni að margoft. Þess vegna þykir mér þetta svona extra furðulegt, að hér er ekki einu sinni beðið um umsögn frá ráðuneytinu. Hvers konar vantraust hefur þetta verið á ráðuneytið líka, að það séu gerðar svona stórar breytingar á málinu og það er ekki einu sinni sóst eftir umsögn, ekkert samráð haft? Mér þykir það vera áhugavert í ljósi þess hvernig mín reynsla hefur verið af vinnubrögðum þessa meiri hluta, að það hefur verið algjört vantraust til ráðuneytisins (Forseti hringir.) og vantraust til starfsmanna þingsins líka og frekar farið einmitt og talað við einhvern lögfræðing hagsmunaaðila úti í bæ. Mér þykir þetta ekki hægt.