154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

Nýsköpunarsjóðurinn Kría.

911. mál
[16:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu þá er það þannig að Kríusjóðurinn sem hefur verið starfræktur hefur ekki sett út neitt fjármagn síðastliðin tvö og hálft ár, sérstaklega vegna þess að það voru þannig skilyrði gerð fyrir því að leggja fjármagn inn í vísisjóði að það voru ekki neinir sem uppfylltu þau skilyrði. Mig langaði því að spyrja hæstv. ráðherra í fyrra andsvari hvernig hún sér fyrir sér að breyta þeim skilyrðum í nýja sjóðnum þegar að því kemur.

Svo langaði mig einnig að spyrja hæstv. ráðherra varðandi síðustu málsgrein í 3. gr. frumvarpsins þar sem þessum sjóði er leyft að fjárfesta beint í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum sem eru í rauninni ákveðin samkeppni við þá sjóði sem sjóðurinn er líka að fjárfesta í samkvæmt 1. mgr. og 3. mgr. þessarar greinar. Mig langaði aðeins að vita hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að sjóðurinn væri ekki í samkeppni við sjálfan sig annars vegar og hins vegar hvernig hún sér fyrir sér að breyta reglunum þannig að það séu einhverjir sjóðir sem geti sótt um stuðning þarna frá.