154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

Nýsköpunarsjóðurinn Kría.

911. mál
[17:00]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir þetta frumvarp sem virðist vera hið mesta þjóðþrifamál. Það er gríðarlega mikilvægt að við styðjum vel við nýsköpun og við þurfum ekki síður að vera með það á hreinu að það er ekki endilega einfalt. Sprotafyrirtæki þurfa að geta vaxið og fjármögnunar- og rekstrarumhverfi þeirra verður að þróast á sama tíma. Það sem hentar litlum sprotafyrirtækjum þarf ekki að henta þeim þegar þau stækka og við viljum að þau stækki. Eftir því sem sprotafyrirtækin stækka minnkar þörf þeirra fyrir aðstoð og þau fara að leggja meira og meira til samfélagsins með því að skapa störf og eftir atvikum aðrar greiðslur til ríkisins. En við verðum að vera meðvituð um að það gerist ekki af sjálfu sér. Slíkt umhverfi krefst þess að við sköpum það og að við sköpum umhverfi sem tekur sprotafyrirtækin áfram og kemur til móts við þarfir þeirra eftir því sem þau þróast, stækka og dafna.

Þegar sjóðir eins og sá sem hér er til umræðu styrkir síðan fyrirtæki eignast hann eðlilega hlut í þeim. Eðli slíkra sjóða er að stór hluti slíkra fjárfestinga verður verðlítill eða verðlaus, enda ekki endilega tilgangurinn með þeim að hagnast mikið heldur að styðja við nýsköpun og sprotafyrirtæki. Í því skyni er mikilvægt þegar það gerist að fyrirtækin komast á flug og sú eign sem við það skapast skilar sér aftur inn í sjóðinn að gæta þess að fjármagnið sem verður til þannig nýtist til frekari uppbyggingar. Það sem mér sýnist vanta í þetta frumvarp er að við tryggjum að sá ávinningur sem kann að verða til skili sér sem mest aftur inn í sjóðinn, enda er það lykilatriði til að slík fjármögnun sem hér er til umræðu standi styrkum fótum. Ég vil því hvetja hæstv. ráðherra og Alþingi allt og nefndir til að skoða hvernig hægt sé að tryggja að slíkt ferli verði skilgreint með gagnsæi og heilindi að leiðarljósi.

Að öðru leyti vil ég hrósa þessu framtaki og fagna frumvarpinu því að tækni og nýsköpun er afar mikilvæg. Við höfum ótal dæmi um það hversu jákvætt það er þegar við sjáum hvað gerist þegar íslenskt hugvit fær tækifæri til að blómstra og skila miklum ávinningi fyrir samfélagið og tæknisamfélagið og gefa til baka.