154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

dómur Mannréttindadómstóls Evrópu .

[13:51]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég hef verið í kjörbréfanefnd frá því að ég tók fyrst sæti á þingi árið 2016. Ég vildi setja það í smá samhengi vegna þess að fyrsta spurningin sem er iðulega spurt á fundum kjörbréfanefndar er: Hefur ákvörðun okkar einhver áhrif á niðurstöður kosninga? Svo er beðið með öndina í hálsinum þangað til stærðfræðingurinn segir: Nei, sama hvernig þið úrskurðið um vafaatkvæðin þá mun það ekki breyta niðurstöðum kosninga. Og þá andvarpa allir af létti því að þá getur Alþingi í raun og veru ekki hlutast til um hæfi sitt á neinn hátt, það mun ekki breyta neinu. En á meðan það er möguleiki að það gerist þá er þetta risastórt vandamál. Það er búið að vera eitthvað sem við höfum vitað af alveg frá því að ég tók fyrst sæti í kjörbréfanefnd. Þetta er (Forseti hringir.) vandamál en það hefur ekki verið vilji til að laga það fyrr en loksins kannski að við rekumst á vegginn. (Forseti hringir.) Það urðu breytingar og það er slegið á puttana á okkur. (Forseti hringir.) Þá fyrst þarf að laga það sem var augljóst öllum, alla vega frá því að ég tók til starfa hér.