154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

Störf þingsins.

[10:47]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Starfshópur um eflingu samfélagsins á Langanesi hefur nú skilað skýrslu og tillögum til stjórnvalda. Viðfangsefni hópsins vörðuðu einkum málefnasvið umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis. Ég tek undir niðurstöður starfshópsins og legg áherslu á samhengi þeirra við aðrar aðgerðir og áherslur stjórnvalda á svæðinu og fyrri vinnu og mikilvægi þess að fylgja þessum tillögum eftir. Mat starfshópsins er að forgangsmál sé að stórauka flutningsgetu á raforku til Þórshafnar og nágrennis og að beinast liggi við að slíkt verði gert með nýrri og öflugri raflínu frá Öxarfirði til Þórshafnar, sem yrði hluti af flutningskerfi Landsnets. Orka er lykill að samkeppnishæfni svæðisins og orkuskiptum og forsenda fyrir sókn nýrra atvinnuvega að ógleymdum tækifærum þeirra fyrirtækja sem nú starfa á svæðinu til vaxtar og þróunar. Einnig er lögð áhersla á að orkuöflun á svæðinu verði skoðuð og sérstaklega stutt við jarðhitaleit þar. Þá er lagt til að unnið verði áfram með tillögu um friðlýsingu á utanverðu Langanesi og að stofnaður verði þjóðgarður þar í sátt við íbúa og hagsmunaaðila. Samhliða verði unnið að uppbyggingu innviða og m.a. að koma upp starfsstöð í náttúrurannsóknum í samræmi við tillögu nefndar um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa frá 2018. Það gæti skapað segla fyrir ferðamenn og aflað þekkingar sem getur bæði stutt við vernd og nýtingu til framtíðar. Svæðið má segja að sé ónumið af ferðamönnum og segull á Langanesi í samhengi við frekari uppbyggingu Heimskautsgerðisins á Raufarhöfn gæti gjörbreytt grundvelli ferðaþjónustu á svæðinu frá Ásbyrgi til Vopnafjarðar. Loks minni ég á að vegabætur á Brekknaheiði eru á dagskrá og verkefnið Betri Bakkafjörður er að gera marga góða hluti.