154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og spurningarnar. Ég fór ágætlega yfir það, eins og langt og ég komst í kynningunni, í framsögunni, að þær skattalegu breytingar sem eru fyrirhugaðar í fjármálaáætluninni liggja fyrir. Þar á meðal er þessi 1% tekjuskattur sem kemur til á árinu 2025, sem er þá skattur sem einhver gæti sett í samhengi við einhvers konar hvalrekaskatt á auknar tekjur af þeim miklu umsvifum sem við höfum sem betur fer séð í íslensku hagkerfi. Síðan þær breytingar sem við erum fyrst og fremst að gera á umhverfi ökutækjaskatta en síðan eru líka þessir alþjóðlegu skattar, sem eru nýmæli. Síðan nefndi hv. þingmaður skattlagningu á þá sem eingöngu greiða fjármagnstekjuskatt. Þetta er búið að vera áhugamál mitt lengi. Ég held ég hafi spurt þáverandi fjármálaráðherra hér 2010 eða 2011 úr þessum stól hvort það kæmi til greina að setja slíka skatta á og núna er ég í fjármálaráðuneytinu og hyggst koma með frumvarp þessa efnis í haust þannig að ég get svarað því játandi við hv. þingmann. Það eru kannski fyrst og fremst þessi atriði sem við erum með fyrirhuguð sem skattbreytingar og ekki aðrar breytingar en þessar fyrirhugaðar í þessari fjármálaáætlun eins og fram kemur. Það er mikilvægt að ítreka líka að með því hafa hófsemd í útgjaldavextinum þá náum við að aðlaga hagkerfið og það er alla vega sýn okkar að þannig náum við hvað best jafnvægi í því sérstaka ástandi sem við búum við, með mikla verðbólgu, háa vexti og umtalsverða þenslu enn þá á vinnumarkaði. En við erum augljóslega farin að sjá samdrátt í einkaneyslu og umsvifum, m.a. vegna þess að vaxtastigið er hátt.