154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:46]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Já, mjög eðlilegt að taka 130 milljarða kr. að láni á hverju ári til þess að borga niður lán og taka ný lán, borga niður skuldir og taka ný lán. Ráðherra segir að þetta séu um 10% af heildarskuldum ríkisins sem er hækkun á heildarskuldum. Ég veit ekki hvaða heimili í dag gæti hækkað lánin sín um 10% reglulega en einhverra hluta vegna gerist það náttúrlega í verðbólgunni og verðtryggingunni, það er u.þ.b. þannig sem það virkar, alla vega framan af. Þetta er dálítið áhugavert. Ég var í samtali í morgun við áhyggjufullan einstakling sem var einmitt að velta fyrir sér láninu sínu en afborganirnar höfðu hækkað um 100.000 kr. á mánuði, um 60%. Hann þyrfti að auka ráðstöfunartekjur sínar um 100.000 kr. á mánuði til þess að eiga fyrir því, þ.e. launin um 185.000 kr. á mánuði. Fyrir einhvern sem er kannski með 500.000 kr. er það 37% hækkun. Í þessari blessuðu kynningu á fjármálaáætlun var ráðherra að monta sig af því að ráðstöfunartekjur hefðu flogið hérna fram úr öllum öðrum. En á bak við þessar tölur er kostnaður sem þarf að greiða, t.d. húsnæðiskostnaður, hjá sumum upp á 100.000 kr. hækkun á mánuði. Þessar ráðstöfunartekjur fuðra bara upp í verðbólgubálinu í stýrivöxtunum sem eru hérna þannig að það er mjög ósanngjörn framsetning að segja að ráðstöfunartekjur séu á fleygiferð, fram úr öllum öðrum, þegar á bak við það er í rauninni rýrnun á því sem eftir er þegar búið að borga af lánum o.s.frv. Vissulega eru ekki allir (Forseti hringir.) búnir að losna úr föstum vöxtum. Það er að vinna smám saman á og sá hópur fer stækkandi og ég vil spyrja ráðherra hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessum hópi.