154. löggjafarþing — 98. fundur,  18. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[13:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Í fyrri parti ræðunnar kom þingmaðurinn inn á að Seðlabankinn hefði ekki lækkað vexti eins og margir höfðu væntingar til að gæti gerst þótt ekki yrðu kannski ekki stórvægilegar breytingar vegna aðstæðna. Hann taldi það allt því að kenna að fjármálaáætlun og stefna ríkisstjórnarinnar lægi ekki fyrir. Ef ég man rétt þá taldi Seðlabankinn upp þó nokkra þætti sem gerðu það að verkum að hann vildi hinkra, til að mynda þá staðreynd að enn er talsverð þensla, sérstaklega á vinnumarkaði, þá staðreynd að þó að það liggi fyrir langtímakjarasamningar á almenna markaðnum þá sé ekki búið að ganga frá samningum á opinbera markaðnum, þá staðreynd að verðbólga hafði ekki tekið kannski markviss lækkunarskref akkúrat á þeim tímapunkti, satt best að segja hækkað, held ég, um 0,1% rétt áður. Svo var nefnd fjármálaáætlunin. Það voru alla vega þessir fjórir þættir nefndir og mér finnst sanngjarnt í umræðunni að telja þá upp af því að það var ekki þannig að Seðlabankinn lækkaði ekki vexti vegna þess að fjármálaáætlun væri ekki komin fram, heldur voru taldir upp þó nokkrir þættir og meira að segja fleiri til. Ég vildi nefna þetta.

Svo kom hv. þingmaður og sagði að ríkisstjórnin, þessi nýja, hefði tekið við slæmu búi og það væri erfitt að brúa stóra gatið. Þá vil ég bara nefna að þrátt fyrir að verðbólga sé enn há og kostnaður vegna hennar og þrátt fyrir jarðhræringarnar á Reykjanesi og þrátt fyrir að við séum að takast á við þó nokkrar skuldbindingar vegna kjarasamninga, þá verður árið 2024 í samræmi við 2023. Það er ekkert stórt gat, hv. þingmaður. Við erum hins vegar í hófsömum vexti, á skynsamlegri leið og munum ná vel á hinn bakkann á þessu tímabili. Það var náttúrlega tekið við mjög góðu búi og ég fór vel yfir það í minni framsögu að það eru fá lönd sem stóðu betur að vígi eftir faraldurinn heldur en Ísland.