154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Það er gríðarlega stórt og mikilvægt ráðuneyti sem hæstv. ráðherra fer fyrir og við í samgöngunefnd höfum náttúrlega verið að taka ýmislegt af þessu og þar er samgönguáætlun inni. Við höfum mikið verið að bíða eftir endurskoðuðum samgöngusáttmála, það er mikil umræða um það sem hefur tafist töluvert undanfarið og allar kostnaðartölur virðast vera að hækka mikið. Mig langar kannski rétt að grípa niður í það, það kemur ráðherra kannski ekki á óvart, sem kom fram hér á undan varðandi Hvassahraun. Við erum búin að bíða hér í tvö til tvö og hálft ár, eða hvað þetta er orðið? Þetta er orðinn mjög langur tími, það hefur verið kallað mjög lengi eftir Hvassahraunsskýrslunni. Það eru því nokkur tíðindi að hún sé tilbúin til kynningar og gæti komið hér inn í þingið á allra næstu vikum, kannski eftir hálfan mánuð eða svo, ef hún verður kynnt fyrir ráðherra í næstu viku eða þarnæstu.

Gríðarleg breyting hefur orðið með Grindavíkureldunum, jarðhræringum á Reykjanesi, í öllum þeim málum og ég held að öllum sé það ljóst. Væntanlega verðum við með opna umræðu um Hvassahraunsskýrsluna og öll þau mál. En það sem hefur kannski líka komið upp tengt Grindavíkureldunum er Sundabraut og mikilvægi hennar. Ég held að flestir séu komnir á þá skoðun að mikilvægi Sundabrautar hefur stóreflst miðað við jarðhræringarnar, að byggðin muni þróast með öðrum hætti frá sprungusvæðum og skjálftasvæðum. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hvar liggur hugur hennar varðandi Sundabraut?

Það var áhugavert að sjá á forsíðu Morgunblaðsins í gær og í fréttum að nú væri farið að mæla þarna út bergið undir mögulegri brú yfir voginn. Það fannst mér eiginlega vera fyrsta skrefið varðandi Sundabraut, það er í fyrsta sinn sem maður sér eitthvað verklegt. En þetta er mikilvægt og ég kalla því eftir skoðun ráðherra hvað Sundabrautina varðar, hvernig hæstv. ráðherra lítur á hana.