154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[11:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. innviðaráðherra fyrir hennar framsögu. Ég vil nota þetta tækifæri, af því að ég hef ekki verið í beinu samtali við hæstv. ráðherra fyrr, ekki síðan hún kom aftur úr veikindum — ég vil óska henni alls hins besta, gott að sjá hana, og til hamingju með nýtt ráðuneyti. Það er tvennt sem ég velti sérstaklega fyrir mér. Ég hlýddi á framsögu hæstv. ráðherra og hún veltir hér mörgu upp enda ráðuneyti hennar yfirgripsmikið eins og fram hefur komið. Þar á meðal nefnir hún kjarasamninga og gjaldfrjálsar skólamáltíðir, sem er stórkostlegt fyrir fátækar fjölskyldur. En þá velti ég fyrir mér, af því að ég tel mig þekkja nokkuð vel hjartalag hæstv. ráðherra — þó að ég sé nú stundum aðeins að stinga í hana þá held ég að hún hafi frekar fallegt hjartalag. Í gegnum tíðina, eins og við öll vitum, hefur það ekki verið neinn vandi að skerða t.d. almannatryggingaþega og einstaklinga sem eru á félagslegum stuðningi, allt sem þeir hafa gert hefur verið tekjutengt. Það er alveg sama hvernig þeir reyna að bjarga sér, þeim hefur verið refsað fyrir það.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra: Finnst henni ekki ástæða til að við skoðum það að tekjutengja skólamáltíðir þannig að foreldrar sem eru miklu meira en aflögufærir til að næra sín börn — að það sé í raun tekið tillit til þess þannig að þau standi ekki alveg jafnfætis þeim sem ekki eiga fyrir mat á diskinn? Það er kannski smáréttlæti í því, finnst mér, og ég velti því fyrir mér hvað hæstv. ráðherra finnst nákvæmlega um það. Í síðara andsvari mínu mun ég svo koma með hinn hlutann af fyrirspurninni sem mig langar til að beina til hæstv. ráðherra.