154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:45]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Í skýrslu starfshóps hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Skattar og skattaívilnanir á sviði umhverfismála, frá því í febrúar á síðasta ári, var mat lagt á aðgerð nr. 19 í stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra í úrgangsmálum frá árinu 2021 sem ber heitið Í átt að hringrásarhagkerfi. Aðgerðin fjallar um eflingu viðgerða og viðhaldsþjónustu. Mat starfshóps hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var, með leyfi forseta, að ekki væri rétt að afnema virðisaukaskatt af vinnu við viðgerðir og viðhald á húsgögnum, raf- og rafeindatækjum o.fl. Það þótti ekki heldur rétt að veita einstaklingum heimild við skattskil til að draga frá tekjum helming kostnaðar við keypta vinnu við viðgerðir eða viðhald stórra heimilistækja. Í ljósi þessa langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort frekari vinna sé í gangi á vettvangi Stjórnarráðsins við að ná fram markmiðum aðgerðarinnar svo að við færumst hraðar í átta hringrásarhagkerfi og hvernig hæstv. ráðherra hyggst beita sér í þessum málaflokki.