154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:03]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, að hefðbundnir fjölmiðlar skipti máli og hefðbundnar ritstjórnir skipti gríðarlega miklu máli. Ég held að þær skipti alltaf minna og minna máli. Ég held að ritstjórn Morgunblaðsins hafi haft miklu meiri völd hér áður fyrr, tala nú ekki þegar þeir sátu þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins. Ég held líka ritstjórn Heimildarinnar og jafnvel RÚV skipti minna máli í núverandi umhverfi en fyrir nokkrum árum og það sé óþarfi að ríkið sé að styrkja, en það virðist vera að það sé að nást að tefja þá þróun sem á sér stað. En ég tek undir þetta með tekjumódelið, það er þar sem vandinn liggur. Auglýsingatekjurnar eru að fara til erlendra aðila en ekki Íslendinga og þeirra sem eru að búa til efnið. En ég verð að segja það alveg eins og er, ef við horfum á það út frá tjáningarfrelsinu, að ríkið sé að skipta sér af tjáningar- og skoðanafrelsi í landinu með þessum hætti. Ég vil bara minna á að það voru flokksblöð hérna áður fyrr í fjórflokkakerfinu. Það er sem betur fer farið. Við getum haldið því fram jafnvel að þetta eigi bara að hafa sinn gang í því tækniumhverfi sem er í dag. (Forseti hringir.) Það er gríðarlega auðvelt að koma skoðun sinni á framfæri og það er til bóta. Við eigum ekki að þurfa að styrkja stofnanir sem fólk hefur jafnvel ekki áhuga á að fylgjast með.