154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:19]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég fylgdist hér áðan með orðaskiptum hæstv. ráðherra við hv. þm. Eyjólf Ármannsson um fjölmiðla. Þar var aðeins verið að tala um hvort við þurfum á annað borð að vera að styrkja fjölmiðla vegna þess að það sé orðið svo mikið um að fólk hafi sína eigin rödd á samfélagsmiðlum og öðru slíku. Hæstv. ráðherra kom þá kannski inn á lykilpunktinn í því sem er auðvitað sá að eitt eru ritstýrðir fjölmiðlar sem segja fréttir og slíkt og annað eru síðan þær skoðanir sem við setjum fram á samfélagsmiðlum og okkar eigin miðlum.

Ég er þeirrar skoðunar að ríkisútvarp þurfi að vera sterkt en ég er líka þeirrar skoðunar að búa þurfi til þannig umgjörð að það geti verið til hliðar við einkarekna miðla sem þrífast líka. Við erum auðvitað mikið að tala um tekjumódel miðlanna. Þeir eru allir að fóta sig í nýju umhverfi. Við erum að tala um samspilið milli þess hvernig Ríkisútvarpið er á auglýsingamarkaði og einkaaðilarnir og síðan erum við auðvitað að ræða þá staðreynd að það er ótrúlega mikið og hátt hlutfall af auglýsingatekjum sem fer bara beint úr landi.

En hæstv. ráðherra hefur svolítið talað fyrir því, eða talaði a.m.k. einu sinni fyrir því, að það væri heppilegt að taka RÚV af auglýsingamarkaði. Svo breyttist það og þá var talað um að minnka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði, væntanlega þá til þess að gefa súrefni inn í einkareknu miðlana. Ég tók eftir því að það er búið að búa til einhverja smáumgjörð um það inni í þjónustusamningi við Ríkisútvarpið að dregið verði úr umsvifunum.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um það hvaða tryggingu við höfum fyrir því hvernig það muni þá þróast. Síðan langar mig að spyrja út í það hvort öruggt sé að það skili sér beint til einkamiðlanna og hvernig ráðherra sjái til lengri tíma samspilið vera þarna á milli.