154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:27]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra varðandi ríkisstyrkta fjölmiðla. Hún talaði um ritstýrða fjölmiðla, eins og það væri eitthvað hátt uppi. Við megum ekki gera of mikið úr hugtökum eins og ritstýrðum fjölmiðlum. Hvað er ritstýrður fjölmiðill? Jú, það er sennilega fjölmiðill sem er með þrjá starfsmenn, það er ekki merkilegra en það. Og það að stjórna umræðuþáttum, er það endilega ritstýrð fjölmiðlun? Það getur verið hvað sem er. Ég vil fullyrða að sú umræða sem er í dag á skjánum fari ekki fram á ríkissjónvarpinu, svo mikið er víst. Og það að vera að ríkisstyrkja og halda úti ríkisútvarpi og bera okkur saman við Norðurlöndin, það er bara gjörólíkt. Noregur er allt annað samfélag og Svíþjóð og Danmörk svo að dæmi séu tekin.

Við komum úr flokksblaðamennskunni í litlu samfélagi og það er gríðarlega mikilvægt að einstaklingarnir fái að njóta sín sem hafa til þess getu og kjark til að stofna sína eigin fjölmiðla, frjálsa og óháða. Ég vil bara vekja athygli á því að við vorum hér lengi með öflugt dagblað sem var frjálst og óháð. Við þurfum á fjölmiðlum að halda sem eru án ríkisstyrkja, sem eru algerlega frjálsir og óháðir og ekki háðir neinum. En sú þróun sem á sér stað núna er að við erum að gera atvinnugreinina, við getum kallað það atvinnugrein, að ríkisstyrktri atvinnugrein. Það er verið að gera fjölmiðlamenn, að hluta til eða alfarið, að ríkisstarfsmönnum og það er ekki góð þróun. Ég tel mjög mikilvægt að þetta fái að þróast, sérstaklega í ljósi þeirra tæknibreytinga sem orðið hafa og hversu auðvelt er að koma skoðunum sínum á framfæri.

Og annað sem er líka í þessu varðar listamannalaunin. Það á að auka þau mjög mikið og þar er líka verið að gera listamenn sem eru sjálfstætt starfandi, ekki að vinna hjá stofnunum eins og Þjóðleikhúsinu og annars staðar, að ríkisstarfsmönnum. Ég tel að þetta sé þróun sem við eigum að horfa á gagnrýnum augum og alveg sérstaklega varðandi fjölmiðlana. Ég tel það ekki forsvaranlegt í ríki sem vill binda sig við skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi að ríkið sé að skipta sér of mikið af fjölmiðlum.