154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:37]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka hér fyrir þessar stefnur og hvernig við erum að nálgast þau viðfangsefni og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í hinum stafræna heimi. Hv. þingmaður talaði um máltækniáætlun og lýsti að sjálfsögðu áhyggjum yfir því hvernig verkefnið lítur út. Það er hins vegar svo að máltækniáætlunin er að fullu fjármögnuð til ársins 2026. Þegar við erum búin að klára það ár eða þá áætlanagerð setjumst við að sjálfsögðu yfir það aftur og könnum hvort við höfum náð þeim markmiðum sem við settum okkur. Við gerðum það með fyrri máltækniáætlun. Við höfum klárað að smíða þá innviði sem eru nauðsynlegir til að koma þeim máltæknilausnum á framfæri.

Ég myndi segja, virðulegi forseti, að sá árangur sem við höfum náð sé einstakur. Við höfum komið máltæknilausnum inn í helstu gervigreindarforrit. Ég get líka upplýst hv. þingmann um það að við erum að fara aftur vestur til að eiga samtal við tæknifyrirtækin, eins og Microsoft og OpenAI, og fleiri aðila til þess að koma þessu íslenska hugviti á framfæri og tryggja að við getum talað íslensku við tækin okkar.