154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:04]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Það er óþolandi og óviðunandi að barn fái ekki að æfa íþróttir eða læra á hljóðfæri vegna fjárhagsstöðu foreldra sinna. Þannig viljum við ekki hafa hlutina á Íslandi. Hvert einasta barn sem býr við slíkar aðstæður er einu barni of mikið. Samkvæmt úttekt frá Vörðu – rannsóknastofnun vinnumarkaðarins býr fjórðungur einstæðra foreldra við efnislegan skort og hátt í þriðjungur þeirra getur ekki greitt kostnað vegna tómstundastarfs barna sinna. Það vill svo til að Framsóknarflokkurinn lofaði því fyrir síðustu alþingiskosningar að veittur yrði sérstakur tómstundastyrkur, vaxtarstyrkur eins og það var kallað í kosningabaráttunni, fyrir öll börn með 60.000 kr. greiðslu óháð efnahag. Ég hef spurt hæstv. ráðherra um efndir á þessu kosningaloforði áður. Ég held að þetta sé í þriðja skiptið en munurinn núna er kannski sá að Framsóknarflokkurinn er kominn með fjármálaráðuneytið. Því spyr ég hæstv. barnamálaráðherra: Hvers vegna er ekki minnst á þennan vaxtarstyrk, þennan 60.000 kr. almenna tómstundastyrk í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára núna þegar kjörtímabilið fer að klárast? Hvað er að frétta af þessum málum? Hæstv. ráðherra fór hér yfir að stutt yrði sérstaklega við börn með fötlun og börn af erlendum uppruna og stutt við tómstundastarf þessara barna. Getur þingheimur þá treyst því að a.m.k. þessir hópar muni njóta a.m.k. 60.000 kr. tómstundastyrks á hverju ári, að það verði greitt sérstaklega fyrir þessa hópa og það gerist þá núna strax á næsta ári áður en kjörtímabilinu er lokið?