154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

aðgerðir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í Grindavík.

[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Sem betur fer var nú staðan og er í Grindavík að Grindavík er eitt af betur reknu sveitarfélögum landsins og gríðarlega stöndugt. Bæjarstjórnin þar hefur sett upp breyttar fjárhagsáætlanir og ég þekki það úr fyrra starfi mínu í innviðaráðuneytinu að þar hafa menn getað búið til ágætisáætlanir út þetta ár og sjá fyrir sér alveg ágætisfyrirkomulag á þeim fjárhag sem þeir hafa úr að spila eitthvað fram á næsta ár. Það er hins vegar mikilvægt að taka á því og ég veit að sú vinna er í gangi í innviðaráðuneytinu og hjá núverandi innviðaráðherra í samstarfi við bæjarstjórnina, um framhaldið. En það liggur líka í augum uppi að þegar íbúar í rúmlega 700 íbúðum hafa óskað eftir að Þórkatla kaupi húsnæði sitt þá færa viðkomandi lögheimili sitt í það sveitarfélag sem þeir munu búa í og verða þar af leiðandi útsvarsgreiðendur þar, þannig að tekjur til þeirra sveitarfélaga koma. Það er bara einhvern veginn samfélagsleg ábyrgð okkar allra að taka höndum saman (Forseti hringir.) þegar svona hamfarir ganga yfir og reyna að bjarga því sem bjargað verður í samstarfi. Ég hef trú á því að það geri allflest sveitarfélög.