154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir fyrirspurnina og umræðu um þetta mikilvæga sjúkrahús. Þetta er annað af okkar stóru sjúkrahúsum og er kennslusjúkrahús og varasjúkrahús fyrir Landspítalann. Við deilum þeirri skoðun að þetta er afar mikilvæg þjónusta. Ég hef komið því fyrirkomulagi á að stöðugt samtal hefur verið í gangi um fjármögnun Sjúkrahússins á Akureyri. Sjúkrahúsið á Akureyri fær u.þ.b. 11 milljarða á fjárlögum. Við höfum mætt öllum þeim halla sem hv. þingmaður vísaði hér í með aukafjárveitingum þannig að ekki er um það að ræða að það eigi að koma niður á þjónustu. Við horfðum fram á halla eða þróun afkomuspár síðasta árs og bættum varanlega inn í reksturinn 250 milljónum og horfðum inn í önnur verkefni sem hefði átt að vera hægt að ná utan um. Við gerum það áfram. En síðan hefur sjúkrahúsið gert stofnanasamninga sem hafa aukið kostnaðinn og við þurfum að ná utan um það. Það er hins vegar ekki þannig að þetta eigi að koma niður á þjónustu vegna þess að raunaukningin undanfarin ár, á starfstíma þessarar ríkisstjórnar, er um 3–4% á ári umfram laun og verðlag.

Varðandi þessar tölur um minnkun á þjónustu þá get ég nefnt sem dæmi að ég hef skoðað þær tölur sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. 22.000 manns. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef frá Sjúkratryggingum eru þetta 12.347 manns allt árið. Ég er sannarlega að fara yfir þessar tölur og mér er mjög mikið í mun að við pössum upp á þjónustuna og pössum upp á Sjúkrahúsið á Akureyri og að við höldum því samtali áfram.