154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir hennar innlegg hér í umræðuna. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar mikilvægi þessara mála. Varðandi skýrslu starfshóps um hjálpartæki og tillögu til ráðherra þá voru þessar tillögur mjög gagnlegar. Við hv. þingmaður áttum hér ágætissamvinnu um það í þinginu á sínum tíma. Það sneri að því að endurskoða reglugerðir sem lúta að hjálpartækjum og einfalda skipulag við afgreiðslu. Við erum auðvitað alltaf að horfa til einföldunar. Afgreiðslan er í höndum margra ólíkra aðila sem heyra til tveimur ráðuneytum og sveitarfélögum sem vill auka flækjustigið. Því miður þá er það bara staðreynd. Það er einhvern veginn alltaf okkar veruleiki að vera að vinna að því að endurskoða greiðsluþátttöku, sem er auðvitað mjög mikilvægur partur, en um leið að bæta upplýsingamiðlun og meta þetta reglulega og innleiða nýjungar eins hratt og auðið er.

Það hefur verið farið yfir nokkuð af þessum tillögum og mikil vinna hefur átt sér stað. Þetta var mjög gagnleg skýrsla og það er ánægjulegt þegar maður fær tækifæri til að starfa við þetta með framkvæmdarvaldinu og sér hvaða árangri þetta skilar.

Það var farið í þá reglugerðarbreytingu sem hv. þingmaður vísar til til að heimila styrkveitingu til kaupa á hjálpartækjum í frístundum með áherslu á réttindi barna. Tekið var mið af því að hjálpartækin kæmu að notum í leik og starfi en ekki var gerð breyting gagnvart þeim tækjum sem ætluð eru til líkamsæfinga í íþróttum; það var skilgreiningaratriði, var svona lagatæknilegt. Ég hef lagt áherslu á að við bregðumst við því. Við höfum verið að taka saman athugasemdir til að samræma reglugerðina við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það bárust líka athugasemdir frá Íþróttasambandi fatlaðra sem við erum með til skoðunar. Við ætlum svo sannarlega að ná utan um þennan þátt.