154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[16:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Í köflum hæstv. ráðherra á málefnasviðum hans í fjármálaáætluninni eru margar fagrar lýsingar sem ég get vel tekið undir. En þetta eru fyrst og fremst lýsingar á því hvernig hæstv. ráðherra eða þessi ríkisstjórn myndi gjarnan vilja að hlutirnir þróuðust löngu eftir að hún hefur lokið störfum. Þarna eru lýsingar á því hversu æskilegt væri að stytta biðlista og að allir kæmust til læknis sem fyrst og aukin geðheilbrigðisþjónusta og þar fram eftir götunum. Allt ágætismarkmið, ágætislýsingar, en þegar þessi ríkisstjórn hefur nú setið í ýmsu formi í um sjö ár þá hljóta menn að spyrja: Hvers vegna var ekki gripið til aðgerða fyrr til að ná þessum markmiðum, til að mynda varðandi biðlistana þar sem nú eru miklar væntingar bundnar við að í framtíðinni leysist þetta með nýrri tækni m.a. og samkeyrslu biðlista? En látum það liggja á milli hluta. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvað muni gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar með hliðsjón af þessum fögru áformum. Hvað mun gerast í tíð þessarar ríkisstjórnar? Ég beini þá athyglinni sérstaklega að heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins því að hér er mikil áhersla lögð á að efla Landspítalann á komandi árum: Hvað verður gert til að efla heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins í tíð þessarar ríkisstjórnar? Og ég ítreka spurningu hv. þm. Loga Einarssonar um það fjármagn sem vantar inn í rekstrargrunn Sjúkrahússins á Akureyri: Hvenær er að vænta niðurstöðu frá ráðuneytinu um hvernig brugðist verði við því máli?