154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[17:53]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í almannavarnir. Nú tjáði hæstv. ráðherra okkur að til stæði að fara í heildstæða yfirferð á lögum um almannavarnir og ég væri til í að heyra nánar hvað felst í þeim fyrirætlunum ráðherra. Nú höfum við töluvert breytt þessum lögum á undanförnum árum þannig að ég velti fyrir mér hvert markmiðið er með þessu. Í þessu samhengi og í samhengi fjármálaáætlunar vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að almannavarnir séu nógu burðugar til að tryggja öryggi okkar allra en sér í lagi erlendra ferðamanna á svæðinu í kringum eldgosið sem margir hverjir virðast ekki meðvitaðir um hættuna á eldgosi og vappa í Bláa lónið grunlausir um jarðhræringarnar allt í kring. Ég er þess minnug, þegar síðasta eldgos eða núverandi eldgos tók sig upp, að það tók um 40 mínútur að rýma Bláa lónið, alla gestina sem voru að gista þar.

Erum við sofandi á verðinum, virðulegi forseti? Ef það kemur eitthvað hræðilegt fyrir í tengslum við þessar jarðhræringar og ferðaþjónustuna á Íslandi erum við ekki bara að tala um það tjón heldur, að ég tel, óafturkræft tjón er kemur að ímynd Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Er verið að gera nóg til að vara fólk við þeirri hættu sem þarna er? Eru almannavarnir nógu burðugar til þess að tryggja að allir séu meðvitaðir um það hættuástand sem þeir eru að stíga inn í? Er rétt að haga þessu svona, eins og þessu hefur verið hagað?