154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[14:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hér svarar hæstv. ráðherra því til að þetta sé breyting við núgildandi lög. Við erum að fjalla um 136 blaðsíðna lagabálk. Spurningin mín var: Var þetta eina breytingin? Vegna þess að þetta snýst ekki um núgildandi lög og síðan ótímabundin leyfi, það vitum við öll.

Mig langar til þess að spyrja: Af hverju í þessari umfangsmiklu endurskoðun er ekki drepið á því að halda hér útboð líkt og gert er í Noregi og hefur verið gert síðastliðin fimm ár á heimildum? Af hverju var ekki farin sú leið núna áður en — og kannski er ég að svara sjálfri mér — búið er svo um hnútana að þessi leyfi verði ótímabundin? Það er, eins og menn muna, ástæðan fyrir því að ekki er hægt að fara þá leið þegar kemur að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu vegna þess að þar hafa menn jú áunnið sér réttindi. Ef það er ástæðan núna fyrir að binda þetta, hafa þetta ótímabundið, til þess að ekki sé hægt að fara út í þá vegferð síðar að selja leyfin á uppboði til að hámarka arð þjóðarinnar af náttúruauðlindunum, er þá ekki hreinlegast að segja það beint út?