154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:26]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég verð að segja að úr því sem komið er þá held ég að spurningin um hvort fara eigi uppboðsleið eða einhverja aðra sé ekki raunhæf eða hafi mikla þýðingu. Það kann vel að vera að áður en fiskeldi fór hér á flug á fyrsta áratug þessarar aldar hefðu stjórnvöld getað verið búin að setja einhvern slíkan ramma en það var ekki gert og við erum núna með þessa stöðu. Frumvarpið er hins vegar að greiða úr ákveðnum álitaefnum sem hafa komið upp og eru umhverfisleg í grunninn sem varðar það að búa til sérstök smitvarnarsvæði. Þar er auðvitað álitaefni hvernig eigi að tryggja að það sé einn og sami aðilinn á einu smitvarnarsvæði og hvernig eigi að útkljá slík atriði. Ég tel ekki þörf á því ef löggjafinn telur, sem hann hefur gert frá 2019, að þessi atvinnugrein eigi að greiða gríðarlega há gjöld til ríkisins, þá er hægt að gera það með þeirri leið sem hefur verið farin. Það er verið að leggja til breytingar á þessu frumvarpi. Til að ná því markmiði að ná skattheimtu þá þarf ekki útboð til að mínu mati. Það er ekki grundvallaratriði, held ég. En af því að við komum inn á gjaldtökuna þá verð ég að segja að núverandi fyrirkomulag er ekki gott þar sem svo stór hluti af veltu þessara fyrirtækja eða framlegð eða hagnaður fer í skatt, jafnvel þó að það gangi illa og fyrirtækin séu í taprekstri þá ber þeim að greiða þennan skatt. Það er öfugt við það sem gerist í sjávarútveginum í grundvallaratriðum. En á móti kemur að það eru sum atriði í þessu frumvarpi sem ég tel vera til bóta varðandi útfærsluna á gjaldtökunni. (Forseti hringir.) Svo held ég að við hv. þingmaður verðum ekki alltaf alveg fullkomlega sammála um hvernig eða hver upphæðin ætti að vera hverju sinni.