154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, þessi ríkisstjórn sem hefur stjórnað umgerð fiskeldisins hefur einmitt ekki byggt upp traust og þar liggur eiginlega mesta ábyrgðin hjá henni, hún hefur ekki byggt upp traust og hún hefur ekki byggt upp það sem við þurfum á að halda, meiri sátt um fiskeldið af því að hún fylgdi þessu ekki eftir. Á sínum tíma, þó að það hafi verið minnihlutaálit og meirihlutaálit þá voru mikil samtöl í gangi eins og hv. þingmaður veit. Það var verið að reyna að ná inn ýmsum þáttum, m.a. var ég til í að gefa eitt og annað eftir gegn tímabindingu leyfa. Þá gaf ég eftir á öðrum sviðum. Þannig virkaði þetta bara. Við trúðum því einlægt, ég held bæði stjórnarmeirihluti og minni hlutinn, að við værum að fara inn í betra umhverfi með betra eftirliti og öllu því sem því fylgir að framfylgja lagafrumvarpi. En ríkisstjórnin stóð ekki í lappirnar varðandi það að halda utan um þessa umgjörð sem Alþingi hafði samþykkt.

Núna hljótum við að læra af þeirri reynslu sem við höfum af fyrra málinu og núgildandi lögum, pössum upp á að það verði ekki þessi göt, ekki göt í eftirlitinu, ekki göt í aðhaldi, ekki göt í umhverfiskröfum, í kröfum á fiskeldisfyrirtækin og ekki göt í kröfum þjóðar um að það verði greitt eðlilegt auðlindagjald samkvæmt tímabundnum leyfum og helst af öllu vil ég að það verði farið í uppboð en ekki einhverjar krúsídúlluleiðir sem fyrirtækin geta mátað sig inn í og hækkað rekstrarkostnað til að reyna að draga úr þeim gjöldum sem þeim ber að greiða. Ég er alla vega þeirrar gerðar að ég treysti markaðnum til að ákveða verðið. Ég tel líka að það byggist meira traust með því að vera með gegnsætt og opið útboð og það er áhugavert að fylgjast með því hvernig Norðmenn eru að læra af þeirri reynslu og þar eru staðföst stjórnvöld sem eru að fylgja þessu eftir, sjáum hvað setur hvað það varðar. En ég vil meina það líka, ef ég nýti þessar örfáu sekúndum sem eftir eru, ég ætla að leyfa mér í einfeldni minni að treysta því að nýr ráðherra (Forseti hringir.) hafi metnað til þess að fylgja eftir skýrari og ríkari kröfu þegar kemur að náttúruvernd og umhverfi í samhengi við fiskeldi.