154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:44]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð síðasta ræðumanns þegar hún sagði að þessi umræða væri ótrúlega mikilvæg. Hún er mjög mikilvæg um stórt málefni. Ég vil þakka hæstv. matvælaráðherra fyrir að leggja þetta frumvarp fram. Það er mikilvægt að við séum hér að fjalla um heildarlöggjöf um lagareldi með það að markmiði að festa ramma í kringum atvinnugreinina og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna, eins og segir í markmiðum frumvarpsins. Það má sjá á efni frumvarpsins að hér hefur verið horft til þess sem vel hefur tekist í nágrannalöndum okkar, Noregi og Færeyjum, en það er líka mikilvægt að regluverkið endurspegli aðstæður hér á Íslandi.

Ég ætlaði að fara yfir mikilvægi þessarar atvinnugreinar fyrir þau svæði þar sem hún er stunduð en í því sambandi vil ég vísa í orð hv. þm. Teits Björns Einarssonar, hann fór vel yfir þau málefni og ég tek bara undir þau.

Það er margt jákvætt sem má finna í frumvarpi þessu, t.d. aukin áhersla á smitvarnir, dýravelferð og fyrirbyggjandi aðgerðir ásamt innleiðingu jákvæðra hvata til að styðja við framangreindar áherslur. Allt í allt er verið að auka kröfur, herða aðhald og samhliða að gera greinina betur sjálfbæra. En það eru þó nokkrir hlutir, sem kemur kannski ekki á óvart því að þetta eru 136 blaðsíður, sem þarf að skoða betur. Það eru t.d. refsingar vegna atriða sem eru kannski ekki á valdi framkvæmdaraðila eða framleiðslufyrirtækjanna. Þegar er verið að horfa til góðra tillagna sem teknar eru frá Færeyjum og Noregi þá þarf kannski að vinsa úr eldri lög og reglugerðir svo kerfið verði ekki óskilvirkt og óþarflega flókið. Það eru allir sammála um að það þurfi að gera rekstrarumhverfi fyrirtækjanna fyrirsjáanlegt. Það er svolítið talað um einhver atriði sem eru ekki á valdi framkvæmdaraðila og við vitum það alveg að hér geta veður orðið válynd. Það hafa orðið slys vegna þess að ölduhæðin hefur orðið svo mikil að það hefur komið halli á kví. Þótt alltaf sé verið að tryggja kvíarnar betur og betur þá eru ýmis atriði sem þarf að huga betur að. Það eru utanaðkomandi áhrif villtrar náttúru þegar eldið er í opnum sjókvíum, sem hafa áhrif á fiskinn og það er kannski ekki hægt að beita sektarákvæðum þegar þetta eru ekki atriði sem ráðast af eða eru afleiðingar af rekstrinum eða starfsmönnum.

Það er mikið um refsiheimildir og háar sektarfjárhæðir. Það er í sjálfu sér gott að skapa hvata til þess að það sé allt á tæru en ákveðið meðalhóf þarf þó að vera við lýði. Of harðar refsingar geta leitt af sér ósamkeppnishæfni sem kemur líka niður á samfélögum og starfsmönnum. Það á alveg eins við í þessari grein og öllum öðrum sem reknar eru á Íslandi og þar eru ekki svona ákvæði fyrir hendi.

Tillagan um að fækka eldisaðilum niður í einn í hverjum firði er, held ég, nokkuð góð og ég held að þetta sé eitthvað sem við þurfum að horfa til, líkt og var gert í Færeyjum. En útfærslan, hvernig þeim markmiðum skuli vera náð, er mjög óljós. Tímalínan er til 2028 og þá þarf að hreyfa sig nokkuð hratt og þetta þarf að liggja fyrir, fyrirsjáanleikinn í frumvarpinu er nokkuð óljós þegar allar þessar opnu reglugerðarheimildir eru til staðar. Það mætti vera betur skýrt hvernig á að ná því.

Varðandi gjaldtöku á fyrirtækin þá þarf að passa upp á samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og frumkvöðla sem fyrir eru á fleti gagnvart öðrum sambærilegum fyrirtækjum og skoða hvort hæfni minni fyrirtækja og fyrirtækja í uppbyggingarfasa sé til staðar til að standa undir gjöldunum. Þeir aðilar sem eru að hefja starfsemi þurfa að njóta aðlögunar líkt og lagt var til með breytingu sem var gerð árið 2019 þar sem gjaldið fer vaxandi eftir því hvenær þú kemur inn og nær hámarki á sjöunda ári. Fyrirtæki sem eru kannski að koma inn á næsta ári þurfa að fara í sama gjaldtökufasa og fyrirtæki sem eru fyrir á fleti og eru búin að nýta tímann til þess að byggja sig upp. Þetta þarf að skoða því að ég held að það sé mjög mikilvægt að horft sé til þeirra rekstraraðila sem eru búnir að byggja upp fyrirtæki sín í 20 ár, eru úr samfélögunum, þekkja samfélagið, þekkja náttúruna og hafa jafnvel starfað í sjávarútvegi á sama stað og vita hvað er hægt að bjóða bæði samfélögunum og náttúrunni. Þetta er mjög mikilvægt og mér finnst ekki vera hugsað nægilega um þetta, ég sé ekki merki þess í frumvarpinu að það sé verið að horfa til þessara fyrirtækja.

Eins vantar greiningu á áhrifum frumvarpsins á samkeppnisstöðu og framtíðarvöxt samfélaga og atvinnugreinarinnar. Mér finnst það nokkuð bratt að miða við áætlaðan gildistíma laganna. Ég held að við séum ekki að samþykkja þetta frumvarp en vonandi þó í júní, en gildistakan er 1. september 2024. Hér þurfa allir að hlaupa mjög hratt til að ná þessum markmiðum sem hér eru því að breytingarnar eru gríðarlegar.

Hvað varðar samkeppnissjóðinn þá er þetta einungis þriðjungur af fiskeldisgjaldinu. Það vita það allir hér að ég hef talað fyrir því að samfélögin njóti eins og hægt er þessara fyrirtækja og þessarar atvinnustarfsemi. Sveitarfélögunum er ekki gerlegt að vaxa með eldinu og hér er ekki nægt svigrúm gefið svo sveitarfélögin geti sjálf veitt fiskeldisfyrirtækjunum aðhald. Það er ekki bara mikilvægt að tryggja samfélögunum tekjur af greininni heldur hefur líka öll umgjörð áhrif. Eins og fyrir vestan þá er sjókvíaeldi ráðandi atvinnugrein og hefur áhrif inn í alla atvinnustarfsemi á svæðinu eins og sjávarútvegurinn hafði fyrir nokkrum árum, sem þó er okkur mikilvæg stoð áfram. Vöxtur og uppbygging þessarar greinar og þær breytingar sem við fjöllum um núna snerta því ekki aðeins fyrirtækin í greininni heldur heilu samfélögin sem treysta á greinina.

Þegar við erum að tala um skýra ramma þá hnýt ég um allar þessar reglugerðarheimildir. Þær eru mjög opnar og það skapar óvissu auk þess sem erfitt getur reynst að meta heildaráhrif frumvarpsins vegna þessa, bæði fyrir samfélögin, fyrirtækin og hvernig þetta kemur út fyrir í heildina.

Mig langar að nefna hérna líka friðunarsvæðin. Með því að friða núverandi svæði fyrir eldi með lögum en ekki í reglugerð eða auglýsingu líkt og nú hefur verið er verið að girða fyrir það að nota önnur landsvæði í framtíðinni. Til dæmis gæti verið vert að skoða fiskeldi á Ströndum með geldfisk eða nýrri tækni en með skilgreiningu á laxfiski er verið að koma í veg fyrir það. Og hver segir að það sé ekki hægt að hefja sjókvíaeldi á öðrum svæðum sem uppfyllir þau skilyrði sem fyrir eru, t.d. í þessu frumvarpi, ef geldfiskur er notaður? Þá er alla vega ekki áhættumat fyrir hendi. Hérna er algerlega verið að girða fyrir það og koma í veg fyrir þróun í þessum geira og takmarka eldismagn hér við land sem er í andstöðu við aðalmarkmið laganna; að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu.

Síðan er verið að friða svæði eins og við Skjálfanda og Eyjafjörð. Í umsögnum í samráðsgáttinni frá sveitarfélögum á þessum svæðum sem lagt er til að verði friðuð kemur fram að sú tillaga hafi ekki verið borin upp í þeim sveitarfélögum. Mér finnst það nokkuð sérstakt. Þetta er svona, eins og sagt er: Ekkert um okkur án okkar.

Það er lögð mikil áhersla á eftirlit sem er gott og rannsóknir og ég tek undir að það er algerlega nauðsynlegt. Þá myndi ég líka vilja sjá hluta þessara starfa færast nær eldinu, nær starfseminni. Það hefur mikið verið kallað eftir því. Það er staðreynd að þekking byggist betur upp í starfinu sem er nær starfseminni og það er alls ekki nóg að mæta á staðinn endrum og eins, eins og er gert núna, eða þegar eitthvað kemur upp á. Sveitarfélög sem eru við eldissvæðin hafa kallað ítrekað eftir því að eftirlitið sé fært heim í hérað til að fylgjast með rekstrinum bara í rauntíma, ef segja má sem svo. Allt tal um að það sé svo erfitt að vera með eftirlitsmenn í návígi við starfsemina, að það gæti valdið vanhæfi, gef ég lítið fyrir. Þar hlýtur þekking eftirlitsmannsins og hæfni að vega þyngra en möguleg staðsetning.

Á Patreksfirði á að opna í ár þekkingarsetur fiskeldis sem á að hýsa aðstöðu fyrir þjónustu rannsóknar- og eftirlitsaðila. Þarna skapast vettvangur fyrir fagaðila til að byggja upp þekkingu á svæðinu sem hægt er að miðla og gæti mögulega verið liður í að vera leiðbeinandi um betra umhverfi sem myndi styðja við markmið þessa frumvarps um að tryggja vernd og koma í veg fyrir áföll. Styrking eftirlits og rannsókna á eldissvæðum gæti líka uppfyllt ákvæði frumvarpsins um að efla atvinnusköpun í kringum fiskeldið.

Mig langar líka að vitna í umsögn Bláma í samráðsgátt. Þar er fjallað um hvata. Það segir hérna, með leyfi forseta:

„Lagt er til að sjókvíaeldisfyrirtæki geti sótt um afslátt af gjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis á grundvelli fjárfestinga í vistvænum orkugjöfum sem sannarlega draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti. Það er í samræmi við markmið sjóðsins sem er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis …“

Mér finnst að það eigi að taka undir alla svona hvata og byggja undir það.

Hér hefur mikið verið rætt um auðlindina og framsal á henni og það sé verið að láta auðlindir í hendur á erlendum fyrirtækjum og þessarar framleiðslu. En það er nú svo að þó að það sé ótímabundið í þessu frumvarpi þá er ýmislegt gert til þess að girða fyrir og það er talað um laxahluta, þetta er ekki eignarréttur eða óafturkallanlegt forræði. Hér eru mörg ákvæði sem geta leitt af sér að missa þetta leyfi, t.d. ef þú nýtir ekki svæðið þá missir þú það innan ákveðins tímabils. En með þessar greinar eins og aðrar þá er alveg ótrúlega mikið um einhverjar reglugerðarheimildir og mjög opið hvernig þessi heimild er veitt. Í Færeyjum er lagaramminn mjög skýr og einkennandi að það er veitt leyfi fyrir einn framleiðanda í hverjum firði eins og við erum að fara í og eldissvæðin eru þrjú á landinu. Gæðaeftirlit er mjög strangt. En þar eru leyfin tímabundin til 12 ára. Ég held að við getum farið þessa leið sem Færeyingar hafa farið og mér finnst það afturför að það sé verið að opna á þetta ótímabundið. Það er bara mín persónulega skoðun að ég held að við getum komist að niðurstöðu um það að hafa tímabundin leyfi með öllum þeim fyrirsjáanleika sem hægt er að koma þar fyrir, jafnvel til 15, 20, 25 ára. En við verðum að tryggja líka fyrirsjáanleika og aðhald með sterkum hætti. En við eigum að geta komist að niðurstöðu um að gera það með þeim hætti.