154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[17:53]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var fjarstaddur á umræddum fundi þegar umrædd afgreiðsla átti sér stað en ég held að ég deili því með þorra þingmanna og Íslendinga að við viljum auðvitað vera Úkraínu til atfylgis í sem víðustu samhengi. Ég held að það sé óheppilegt að við skulum vera að tiltaka sérstaklega orðið hergögn í þessu máli, ég held að við getum og höfum verið rausnarleg og gert mjög mikið í okkar framlögum; spítali, sjúkragögn, mat, fæði, klæði, húsnæði meira að segja hefur rúmast inni í þessum framlögum. Ég get tekið undir það með hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur að það er óheppilegt að við, hin herlausa friðarþjóð, skulum vera mögulega sökuð um að vera að kaupa byssur eða byssukúlur þannig að það hefði gjarnan mátt orða þetta með öðrum hætti. En mig langar til að spyrja hv. formann utanríkismálanefndar, (Gripið fram í.) fyrrverandi, nú varaformaður, í fyrsta lagi hvort hann sé sammála þeirri kenningu, verandi málsmetandi þingmaður og nefndarmaður í ýmsum nefndum fyrir eina flokkinn á þingi sem ekki kýs að vera aðili að NATO, að hugsanlega hafi framganga NATO í þessum heimshluta verið túlkuð sem ögrandi og hugsanlega orðið valdandi að þeim harmleik sem er yfirstandandi.