154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:13]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt í þessu máli, sem öllum öðrum þar sem við erum að ráðstafa fé íslenskra skattgreiðenda og almennings, að við förum í alla þætti málsins og gerum grein fyrir öllum þáttum málsins, því að þótt eining ríki í átta eða níu manna nefnd þingsins þá kunna auðvitað að vera önnur sjónarmið úti í samfélaginu. Við þurfum absalút að hleypa þeim að og viðra þau og veita þeim andsvör eftir atvikum. Það er auðvitað meginreglan að við köllum eftir slíkum umsögnum þó að ljóst sé að málin séu að fara í gegn. Ég segi eins og hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir: Í hjarta mínu er ég eindregið fylgjandi stuðningi við Úkraínu í þessu yfirstandandi stríði. En mér finnst samt mikilvægt að við gætum að þeim þáttum lýðræðisins. Og nú beini orðum mínum til formanns utanríkismálanefndar sem ég bið um að svara mér af því að við fáum kannski ekki mörg tækifæri til þess í utanríkismálanefnd, frekar en öðrum nefndum, að fara í miklar umræður. Við erum of mikið að taka á móti gestum og bara að afgreiða málin. Ef ekki í nefndinni þá kannski bara hérna í þingsalnum getum við átt umræðurnar sem við ættum kannski að eiga oftar í nefndunum. Við höfum rætt það bæði við fyrrverandi formann og núverandi að þetta sé mikilvægt og þá þess vegna að fjölga fundunum ef því væri að skipta. Nú eru ansi sterkar skoðanir frá málsmetandi mönnum í Bandaríkjunum og víðar á því t.d. að NATO hafi haft óheppileg áhrif á framvindu stríðsins. Er formaður utanríkismálanefndar sammála því að það kunni að hafa verið einhvers konar þáttur í þessari framvindu að NATO hafi hreinlega (Forseti hringir.) verið að ögra rússneska birninum? (Forseti hringir.) Síðan kem ég seinna í máli mínu að öðrum þáttum.