154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:18]
Horfa

Jakob Frímann Magnússon (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmanninum fyrir orðin. Ég var ekki að halda þessu fram, ég var að vísa í kenningar sem hafa komið frá mjög málsmetandi mönnum víða í heiminum. Ég vildi bara heyra viðhorf hv. formanns utanríkismálanefndar. Hennar afstaða í því máli kom mér ekki á óvart. Punktur minn er kannski frá því fyrr í dag því ég var hluti af panel Alþjóðamálastofnunar í Norræna húsinu þar sem ég vék að þeirri skyldu okkar sem þingmenn að treysta okkar eigin dómgreind, hyggjuviti og sannfæringu og þar með að halda okkur við það í samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Þá vil ég líka spyrja hv. formann utanríkismálanefndar, þó svo að hún hafi ekki verið í slíkri stöðu hér árið 2004, minnir mig, þegar við skrifuðum upp á Íraksinnrásina, hvort hún telji það hafa verið heillavænlegt, hvort hún telji að við hefðum sem þing samþykkt það ef það hefði yfirhöfuð verið borið undir þingið. Eftiráskýringarnar á því eru auðvitað margvíslegar en þar var auðvitað farið á röngum forsendum, uppspunnum forsendum, og rústað ómetanlegum menningarverðmætum, þúsundum ára gömlum. Harmleikurinn sem þar er, ekki bara að baki heldur viðvarandi, verður seint að fullu afsakaður.