154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

þjónusta við ungmenni sem eru ekki í vinnu, virkni eða námi.

1009. mál
[18:12]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Síðasta spurningin hjá þingmanninum var: Telur ráðherra þörf á breytingum í þjónustu við þennan hóp? Einnig var því velt upp hvar ábyrgðin lægi. Heilbrigðisráðuneytið og félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hafa verið með verkefni sem snýst um að grípa þennan hóp þegar hann er orðinn mjög langt leiddur, búinn að vera lengi utan náms eða vinnu. Hér er tækifæri til þess að grípa hann á fyrri stigum en líka í framhaldsskólakerfinu.

Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna sérstaklega í þessu sambandi. Í fyrsta lagi er það rof á stuðningi sem oft verður við nemendur í viðkvæmri stöðu þegar þeir fara úr grunnskóla í framhaldsskóla. Við þurfum að bæta það hvernig upplýsingarnar og þjónustan flæða úr grunnskólunum í framhaldsskólann. Þar held ég að tækifæri séu í Miðstöð menntunar og skólaþjónustu til að vera svolítið sú brú.

Í öðru lagi vil ég nefna lög sem við erum að vinna að núna um inngildandi menntun barna og ungmenna í leik-, grunn- og framhaldsskólum og frístundastarfi og skipulag þjónustu við þessa inngildandi menntun. Þetta er frumvarp sem við höfum verið að vinna að og reiknum með að koma með það inn í þingið á næsta ári.

Í þriðja lagi er það sem þingmaðurinn var að nefna hérna áðan kannski svolítið sveigjanlegri hugsun og meiri flóra í því sem er til staðar, þ.e. að fjármagnið fylgi þessum nemendum. Staðreyndin er sú í dag að eins og við erum búin að byggja upp fjárhagsmódelið í kringum framhaldsskólanna þá fylgir fjármagnið bara nemandanum á meðan hann er í námi í framhaldsskóla. Ef nemandinn ætlar að fara í fjölsmiðju, lýðskóla eða bara lífsins nám við að vinna í sínum hlutum og komast á „rétta braut“ þá fylgir því ekki fjármagn. Við höfum verið með eyrnamerkt og erum að taka frá fjármagn sem við ætlum sérstaklega í að þróa úrræði til að grípa þennan hóp. Það er hluti af svona fjárfestingarhugsun sem við erum að hugsa í þessu efni vegna þess að fátt er arðbærara fyrir íslenskt samfélag en að ná þessum hópum, bæði fyrir þá sjálfa og lífið en líka fyrir pyngjuna í fjármálaráðuneytinu. Þetta er þungur hópur sem við getum breytt í skattgreiðendur og það eru ekki nein neikvæð umhverfisáhrif af því, bara jákvæð áhrif fyrir viðkomandi einstaklinga og þeirra fjölskyldur.