154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Mig langar að vekja máls á því, í samhengi við það að við ræddum málefni Grindavíkur í gær, að drjúgum hópi þingmanna hafa borist tölvupóstar síðasta sólarhringinn frá einstaklingum fyrir hönd fyrirtækja sinna þar sem lýst er ómögulegri stöðu sem einstaklingar og fyrirtækin þar af leiðandi finna sig í í ljósi þess að þær aðgerðir sem rammaðar hafa verið inn hafa að meginhluta til hverfst um stuðning við einstaklinga sem bjuggu í eigin húsnæði í Grindavík þegar til rýmingar kom á sínum tíma. Það sem mig langaði að nefna í þessu samhengi er mikilvægi þess að fjármálaráðherra, sem væri væntanlega sá sem þyrfti að fara af stað með þann bolta, eigi þetta samtal þannig að fyrirtækjaeigendur upplifi að það sé hið minnsta verið að hlusta á þá. Þessir tölvupóstar lýsa því að úrræðaleysið sé í rauninni algjört og í ljósi óvissunnar sé þessi staða þannig að ef hún verður látin viðgangast öllu lengur þá blasi við allsherjarhrun fyrir þá rekstraraðila sem þarna hafa staðið í atvinnurekstri, a.m.k. ákveðin gerð atvinnustarfsemi. Það geta bæði verið nýsköpunarfyrirtæki, ferðaþjónusta og annað og auðvitað líka bara fólk sem stóð í uppbyggingu fasteigna og þar fram eftir götunum og fasteignirnar skráðar tímabundið á fyrirtæki en ekki einstaklingskennitölu.

Punkturinn er: Við verðum að opna á þetta samtal fyrir rekstraraðila í Grindavík (Forseti hringir.) þannig að slíkir aðilar komist í skjól á meðan úr rætist varðandi áframhaldandi starfsemi í Grindavík og hver næstu skref verða.