154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023--2026.

511. mál
[15:43]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér fyrst og fremst til að fagna því að við erum að fara að greiða atkvæði um þessa tillögu sem er mjög góð. Ég vil líka þakka fyrir gott samstarf við vinnslu á tillögunni og ekki síst öllum þeim sem sendu inn umsagnir og komu og ræddu mjög fjölbreytt málefni sem snerta íslenskuna við okkur í allsherjar- og menntamálanefnd. Ég vil leggja áherslu á það hér að þótt formlega heyri aðgerðin aðeins undir fjögur ráðuneyti þá á þessi aðgerðaáætlun snertifleti við öll ráðuneyti Stjórnarráðsins og það er afskaplega mikilvægt að við náum að tryggja öllum íbúum landsins aðgengi að íslenskunni, bæði þeim sem tala íslensku sem fyrsta mál og þeim sem tala hana sem annað mál.