154. löggjafarþing — 109. fundur,  8. maí 2024.

sjúklingatrygging.

718. mál
[15:50]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við erum u.þ.b. að klára hér frumvarp til laga um sjúklingatryggingu, frumvarp til nýrra heildarlaga, en gildandi lög eru frá 2001 — tímabært, virðulegi forseti, þó svo að við höfum hér í þinginu brugðist við með breytingum þennan aldarfjórðung til bráðabirgða og viðbrögðum m.a. vegna bólusetninga eins og við þekkjum.

Mér finnst ástæða til að koma hér og þakka hv. velferðarnefnd fyrir málefnalega vinnu sem endranær og hv. þingmanni og framsögumanni nefndarinnar, Líneik Önnu Sævarsdóttur. Þær breytingartillögur sem við samþykktum hér við 2. umræðu málsins í gær eru til bóta fyrir málið, um aukna tryggingavernd, einfaldari ferla og málsmeðferð, skýrari reglur og aukið jafnræði, til hagsbóta bæði þeim sem veita þjónustuna og þiggja hana.