19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Steingrímur Jónsson:

Það er tekið fram í nefndarálitinu, að eg og einn annar háttv. samnefndarmaður minn höfum ekki getað orðið háttv. meiri hluta nefndarinnar samferða í allmörgum atriðum og sérstaklega bent á tvo kafla í 13. gr. Að því er mig snertir, byggi eg sérstöðu mína á almennum ástæðum, með öðrum orðum á því, hvernig eg annars vegar og meiri hluti nefndarinnar hins vegar lítum á fjárhag landsins eins og hann er nú og eins og útlit er fyrir að hann muni verða eftirleiðis. Eg skal því leyfa mér að fara um málið nokkrum orðum frá almennu sjónarmiði, enda hygg eg, að eg geti eigi með öðru móti betur rökstutt atkvæðagreiðslu mína.

Mér virðist á því, hvernig álit meiri hluta nefndarinnar er stílað, að meiri hlutinn álíti hag landsins í sérlega óálitlegu lagi og það jafnvel svo, að viðlagasjóðurinn sé á förum. Eg vil nú mótmæla þessu og reyna að færa nokkur rök fyrir þeim mótmælum mínum. Eg gat þess við 2. umræðu fjárauakalaganna, að fjárupphæð viðlagasjóðs hefði verið við árslok 1907 .... 1210.428.32 kr.

og peningaforði landsj. 417.468.71

sem er til samans . . . 1627.897.03 kr.

En eins og kunnugt er, var á fjárhagstímabilinu 1904—5 ekki tekjuhalli, heldur tekjuafgangur, en á fjárhagstímabilinu 1906 til 1907 var tekjuhallinn 111 þús. krónur og hefir því viðlagasjóðurinn á þessum 4 árum minkað um þessa upphæð samkv. landsreikningunum. En ef rétt er á þetta litið, hefir fé landsins ekki minkað, heldur aukist, því eins og kunnugt er, var bæði þessi fjárhagstímabil lagt mikið fé til sjóða, sem standa við hlið viðlagasjóðsins, nfl. tillag til byggingarsjóðsins og fiskiveiðasjóðsins, auk vaxta af því fé, sem áður var lagt hinum áðurnefnda sjóði; mun þetta nema 30—40000 króna. Á sama tímabili var og mikið fé lagt til síma, en það fyrirtæki gefur af sér góða vöxtu, 5%, og er því arðberandi eign fyrir landið. Þetta vildi eg benda á til þess að sýna, að það er ekki á rökum bygt, að viðlagasjóðurinn sé að ganga til þurðar. Háttv. framsögumaður tók fram, að þetta stafaði ekki af góðri fjármálaráðstöfun þings og stjórnar, heldur af óvenju góðum árum til lands og sjávar. Þetta er að eins satt að nokkru leyti, en þó þykist eg mega fullyrða, að árin 1906 og 1907 voru einmitt erfið fyrir landbúnaðinn; fyrir sjávarútveginn voru þau góð að því leyti, að verð á sjávarafurðum var hátt, en afli hefir verið lítill sumstaðar þessi árin. Eg skal þó viðurkenna, að tekjur landsjóðs voru ríflegar, en þess er einnig að gæta, að á þessum tíma var lagt fram fé til merkilegra og arðberandi fyrirtækja, og því fé er ekki fleygt út að óþörfu; það má t. d. benda á, að til símalagninga innanlands var lagt fram á fjárhagstímabilinu 1906—07 hátt á þriðja hundrað þúsund króna. Til vitabygginga var og lagt fram fé eigi alllítið, en það er undirstaða undir verulega tekjugrein fyrir landsjóðinn. Þess má einnig geta, að hér um bil ¼ miljón króna var á þessum árum varið til kláðalækninga, sem öllum mun koma saman um að var nauðsynlegt til þess að halda við efnahag landsmanna og tekjum landsjóðs.

Það er því óhætt að segja, að fjárhagur landsins var í góðu lagi í árslok 1907, og þess er að gæta, að þegar ákveðið var að taka lán 1907, þá var það eingöngu til þess að leggja það í arðberandi fyrirtæki, nfl. síma, enda væri það hvorki réttlátt né þarft, að taka lán til þess að éta út í óákveðnum útgjöldum. Og þegar litið er til fjárhagsáætlunarinnar frá þinginu 1907 og til þess, hvernig hún reyndist, þá getur það ekki dulist, að fjárhagur landsins var í góðu lagi við lok ársins 1908.

Árið 1908 voru tekjurnar að viðbættu láninu sem tekið var áætl. 1657.215 kr.

en reyndust 1969.016 —

þannig fram yfir áætl. . . . 312.801 kr.

Á því sama ári voru gjöldin áætluð 1616.535 kr.

en reyndust 1728.802 —

Þannig varð tekjuafgangur 240.214 kr.

Þessi upphæð — 240.214 kr. — er því óeydd af láni því sem tekið var í Danmörku.

Fyrir árið 1909 voru tekjur áætlaðar 1165.256 kr.

gjöld áætluð s. á 1331.506 —

Ef nú er gert ráð fyrir að tekjurnar fari fram yfir áætlun árið 1909, sem svarar helmingi þess sem tekjurnar fóru fram yfir áætlun 1908 eða 156.400 kr.

þá á tekjuafgangur að verða fullar 90.000 —

en fyrir fjárhagstímabilið er þá afgangs 330.000 —

Eg get ekki búist við að tekjurnar fari árið 1909 minna fram úr áætlun en eg hefi gert ráð fyrir, því það hefir sýnt sig, að innflutningur á vörum var tregur 1908 og má gera ráð fyrir að hann verði heldur meiri en minni 1909. Þá verða eftir þessu við árslok 1909 afgangs af láninu 330.000 kr., en þó er þar við að athuga, að enn er óunnið eitt af því, sem vinna átti árið 1908, nefnilega síminn austur að Garðsauka, sem áætlað var að kosta mundi 48000 kr., og síminn frá Varmalæk að Borgarnesi, sem áætlað var að mundi kosta 8000 kr. Þetta er til samans 56000 kr. Aftur á móti er búið að leggja síma að Húsavík og símann í Fáskrúðsfirði, sem til samans kostuðu landssjóð 26000 kr., svo þar koma 30000 kr. í viðbót. Einnig má búast við, að kostnaðurinn við yfirstandandi þing verði meiri en áætlað er. En það má þó búast við kringum 270000 kr. tekjuafgangi. Þegar þar frá eru dregin 115 þúsund, sem ætla má að verði á fjáraukalögum 1908—09, þá verða þó afgangs á fjárhagstímabilinu 1908—09 175—180000 kr. Eg hygg að hin fráfarandi stjórn, sem undirbjó fjárlagafrumvarpið, hafi bygt á svipuðum hugleiðingum og þetta, og eg tel hana hafa haft fullan rétt til að álíta að góður fjárhagur tæki við tekjuhallanum, sem var á frumv. hennar. Auk þess hafa nú verið samþykt hér í þinginu og staðfest af konungi ný tollaukalög, og með því að gera ráð fyrir sama innflutningi á tollskyldum vörum og verið hefir að meðaltali þrjú síðustu árin (1905—’07), þá verður tollhækkunin eftir þessum lögum 480 þús. kr. á fjárhagstímabilinu. Nú má ef til vill ætla, að vegna tollhækkunarinnar minki innflutningur á tollskyldum vörum, en eg get ekki hugsað mér að hann minki meir en um þriðjung af því sem eg hefi nefnt, og ætti tollhækkunin eftir því að verða 320 þús. kr. á fjárhagstímabilinu. Með þessu kemst þannig góður og sæmilegur jafnaður á fjárlögin, og þó gert sé ráð fyrir 480 þús. kr. tekjuhalla á fjárlögunum og fjáraukalögunum fyrir 1908—1909 þá álít eg það ekki annað en rétta og heilbrigða fjármálapólitík, og það því fremur, þar sem ráð er gjört fyrir, að sem mest verði lagt í veruleg framfarafyrirtæki, eins og vegi og síma.

Neðri deild hefir nú að mestu fallist á þessa skoðun, en jók þó ca. 54 þús. við útgjöldin; auk þess hefir hún bylt frumv. nokkuð við og stórspilt að sumu leyti. Eg skal nefna tvö atriði. Nd. feldi Vestmannaeyjasímann og koparþráðinn frá Borðeyri til Ísafjarðar. Þetta hvorttveggja tel eg ranga fjármálapólitík og rangt gagnvart þessum málum, eins og þau lágu fyrir frá síðasta þingi.

Nú þegar frumv. kemur hingað, þá vill fjárlaganefndin í þessari deild kippa fjárhagnum í lag með því að spara á sem flestum liðum. Það er víst og satt, að sparnaður er oft góður, en það verður að fara varlega í að spara, eins og hvað annað; annars getur sparnaðurinn orðið of dýr. Það er dýrt að vera fátækur, segir gamalt málæki, en það er líka dýrt að spara alt of mikið við sig öll útgjöld, því með því getur maður farið varhluta af miklum hlunnindum.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til, að tekjuhalli frumv. verði minkaður um ca. 190 þús. eða 136 þús. niður fyrir stjórnarfrumv.; og til þess að ná þessu leggur hún til að felt sé burt af frumvarpinu:

Til akbrauta 87.500 kr.

— þjóðvega 5.000 —

— síma 106.390 —

198.890 kr.

og þar fyrir utan hefir Nd. felt:

Vestmanneyjasímann 34.200 kr.

og Ísafjarðarkoparþráðinn.........68.000

— ennfremur Rangárbrúna . . . 42.000 —

= 144.200 kr.

Sparnaðurinn er á fjárlögunum 136.000 kr. og þar að auki 18.000 kr. á fjáraukalögunum. En á móti þessu er neitað um allar þær framkvæmdir sem eg hefi talið hér upp. Eg hygg þetta sé svo dýr sparnaður, að hann sé beinlínis skaðlegur fyrir landið, og þess vegna gat eg ekki orðið sammála meiri hluta nefndarinnar. Eg verð að leggja það til, að deildin samþykki ekki nema sem fæstar af þessum br.till. nefndarinnar.

Háttv. framsögumaður gat þess, að mörgum liðum á fjárlögunum yrði ekki hreyft, af því þeir væru fyrirfram fastákveðnir með lögum. Þetta er rétt, en það gildir einnig t. d. um akbrautirnar; eða eru þær ekki ákveðnar með vegalögunum 1894? Það eru þær vissulega, og ef þess er ekki gætt, þá getur það orðið til þess, að öll virðing fyrir þeim lögum hverfi, menn hætti að halda vegunum við, og þeir verði ónýtir; það er því óhæft að láta lengur dragast að uppfylla fyrirmæli þeirra laga, einmitt vegna þess, að þau eru fyrirfram ákveðin. Eg tel það óhæft, að í tillögum meiri hluta nefndarinnar er feld burt tillaga um fjárveitingu til brúar á Norðurá; það er allsendis óhæft gagnvart vegalögunum; það var búið að veita fé til þess að nokkru leyti 1907, enda er sjálfsagt að leggja þá brú sem fyrst, af því að nú er vegurinn kominn það áleiðis, að komist verður að Norðurá eftir honum, en ekki yfir ána, vegna þess að brúna vantar. Þessi brú á að kosta 50000 kr. og engin brú ætti að sitja í fyrirrúmi fyrir henni, úr því búið er að fella Rangárbrúna. Eg tel það óhæfilegt fyrir þingið, að láta fjárlögin fara þannig frá sér, að gera ekki ráð fyrir að nein stór-brú verði bygð á fjárhagstímabilinu.

Að því er Eyjafjarðarbrautina snertir, skal eg játa það, að ekki er eins mikil nauðsyn á henni eins og t. d. Rangárbrúnni eða áframhaldi Borgarfjarðarbrautarinnar, en engu að síður gera vegalögin 1907 ráð fyrir að hún sé gerð á kostnað landsjóðs, og þar sem nægilegt fé er til að fullgera hana á næsta fjárhagstímabili, sé ég ekki ástæðu til að skorast undan því.

Eg get verið þakklátur fyrir það, að fjárveitingin til Reykjadalsbrautarinnar fyrir 1911 var færð yfir á fjáraukalögin fyrir 1909, því það er afar áríðandi fyrir Þingeyinga að fá veginn að Laxá sem fyrst. Mér er ekki eins sárt, þó klipið verði af 15000 kr. niður í 10000 kr. 1910. Þó eru nokkrar ástæður móti því, að færa fjárveitinguna niður. Verkfræðing landsins þykir ekki gott að stofna til stórs flokks verkamanna, nema hann geti látið vinna fyrir alt að 15 þús. kr.; þá getur hann haft 15—20 manns úti alt sumarið. Eftir áætlun, sem verkfræðingurinn gerði, gæti brautin komist á á 6—8 árum, það er fram að Einarsstöðum, og væri þá aðstaða okkar lík og aðstaða Eyfirðinga nú, þar sem þeirra braut er komin að Grund. En verði klipið af þessum 15000 kr., þá er það gefið að ekki verður hægt að ljúka við hana á 8 árum, nema miklu meira verði veitt síðustu árin. Loks má geta þess, að kaflinn frá fyrirhugaðri brú á Laxá, sem veginum er ætlað að liggja yfir, og þessar 10000 kr. eiga að nægja til, er erfiður hraunkafli, svo að sú upphæð nægir varla. Eg vil því mæla með að þessar 15 þús. kr. verði látnar halda sér.

Um Grímsnesbrautina vil eg taka það fram, að mér finst ætíð varhugavert, að fresta meira en nauðsynlegt er akbrautavegagjörðum, sem landið á að kosta. Þessi vegur er nú afar illur yfirferðar, einn utandeildarmaður hvíslar því að mér núna, að hann sé ófær. Eg legg því til að þessar 10 þús. kr. f. á. standi.

Þá kem eg að símunum. Háttv. frsm. sagði að því væri svo varið um marga þessa síma, sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, að ekki væri hægt að gera sér von um neinar verulegar tekjur af þeim. Þetta er ekki rétt. Af öllum þeim símum, sem stjórnin hefir lagt til að leggja, má búast við góðum tekjum, nema ef vera skyldi Stykkishólms- og Búðardals-símunum. Eg gæti verið með því að fella þá burtu, en alls ekki hina símana. Meiri hluti nefndarinnar vill fella burtu fjárveitingu til að strengja talsíma milli Reykjavíkur og Borðeyrar Það hefir sýnt sig að það er of lítið að hafa aðeins einn járnsíma og tvo koparsíma á þessari línu, eins og nú er. Brúkunin er meiri en svo, að þessir 3 símar fullnægi henni. Það væri því beint peningatap fyrir landið, ef felt væri að bæta þessum þræði við. Og enn nauðsynlegra verður það, að bæta honum við, ef línur verða lagðar til Borgarness og Stykkishólms, sem búast má við, að gert verði áður en langt um líður. Það er því alveg óhjákvæmileg nauðsyn að láta þennan lið halda sér. Fyrst við erum búnir að koma þessum síma upp, þá verðum við að halda honum svo vel við, að hann komi að fullum notum.

Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að eg tel það allsendis rangt gert af Nd., að fella tillag til koparsíma til Ísafjarðar. Einfaldur járnþráður nægir varla til Ísafjarðar eins, hvað þá heldur til allra Vestfjarðastöðvanna; það er enginn vafi á því, að það mundi borga sig að bæta þessum eirsíma við. Þessvegna lýsi eg því yfir, að verði samþykt að leggja tvöfaldan koparsíma frá Reykjavík til Borðeyrar, þá mun eg koma með breyt.till. við 3 umræðu um að bæta koparsíma við til Ísafjarðar. Eg sé ekki að ástæða sé til að spara til símanna, þar sem nóg er eftir af þeirri ½ milljón, sem tekin var til láns og ætluð til símalagninga. Eg hygg að eg þurfi ekki að fara frekari orðum um breyt.till. nefndarinnar; mörgum þeirra er eg samþykkur, og get sýnt það með atkvæði mínu, án þess að fara frekar út í þær nú. — Eg vil víkja lítið eitt að breyt.till. — einstakra deildarmanna. Háttv. 3. kgk. hefir komið með tillögu (þskj. 493) um að veita fé til símalagninga frá Eystri-Garðsauka til Vestmanneyja. Eg er honum samþykkur um það, að nauðsyn sé á þessum síma, og að hann mundi verða gróðafyrirtæki. Á fjárlögunum 1908—1909 voru veittar c. 48000 kr. til síma til Garðsauka; nú verður það meira, því tillagið frá sýslunum hefir verið fært niður. Það er engin von um að þessi sími borgi sig, ef hann nær aðeins að Garðsauka, en hinsvegar er enginn vafi á því, að hann borgar sig mjög vel, ef hann verður lagður alla leið til Vestmanneyja. Háttv. 3 kgk. benti á þörf Vestmanneyja sem fiskipláss fyrir síma; auk þess mundu siglingarnar hafa mikið gagn af honum, því fjöldi skipa er oftast nær kringum Vestmannaeyjar. Þar að auki getum við ekki sóma okkar vegna látið það spyrjast, að við höfum ekki síma til þessara stöðva landsins, sem skip koma fyrst til á leiðinni hingað frá útlöndum, þegar sími er á annað borð á næstu grösum. Það er ekki rétt hjá háttv framsm. að þýðingarlaust sé að samþykkja þessa fjárveitingu hér, af því hún hafi fallið í Nd., því þar féll hún aðeins með 11:11, og gæti því vel komist í gegn, ef hún væri samþykt hér. Eigi að spara til svona fyrirtækja, þá er það óholl sparnaðarstefna, einkum þegar ekki vinst meir með sparnaðinum en sýnilegt er hér. — Þá eru breyt.till. á þskj. 511, frá háttv. þm. Strand. Eg geri ráð fyrir að verða á móti þeim af þeirri ástæðu, að eg sé ekki betur, en að afleiðingin af slíkum fjárveitingum mundi verða sú, að farið yrði að heimta í gengdarleysi fé af landsjóði til brúa og vega hvar sem er. Mér vitanlega er vegurinn úr Hrútafjarðarbotni í Gilsfjarðarbotn hvorki þjóðvegur né sýsluvegur; hann er líklega ekki einu sinni hreppsvegur. Sömuleiðis get eg ómögulega verið með fjárveitingum til brúargerða á smá-ár, alveg út í loftið; eg sé ekki betur en það væri að strá peningum út alveg stefnulaust. Að hugsa sér, ef ætti að samþykkja slíkar fjárveitingar um leið og neitað er þeim kvöðum, sem vegalögin 1907 og símalögin 1905 leggja á fjárveitingarvaldið!