20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Sigfússon:

Eg tek ekki til máls í því skyni, að létta á framsögumanni, heldur til þess, að gefa skýrslu, sem eg hygg ekki óþarfa. Býst líka eins vel við, að ýmsir af háttv. þm. séu ekki kunnugir málavöxtum.

Fyrst ætla eg þó, að gera almenna athugasemd, áður en til skýrslunnar kemur.

Það kveður oftast við, að fjárlaganefndin skamti naumt. Það er nú reyndar ekki undarlegt, þótt mönnum finnist það, því að fjárlaganefndin er líkt sett og sú húsmóðir, sem mörgu heimilisfólki hefir að skamta — og gestum að auki, en föngin þó lítil fyrir hendi. Munnarnir eru margir, og ekki unt að fullnægja öllum. Þess vegna hefir bæði þessi fjárlaganefnd og allar aðrar orðið að spara, svo að bæði heimilisfólkinu og gestunum hefir þótt nóg um.

Fjárlaganefndin hefir gert sér far um, að neita sem minst sanngjörnum bænum, en um hitt má deila, hvað nauðsynlegast sé og sanngjarnast.

Skýrslan, sem eg ætlaði að gefa er um kvennaskólann á Blönduósi. Það er búið að tala mikið um kvennaskólann í Reykjavík og hafa menn þar fyrir sér sundurliðað yfirlit aftan við fjárlagafrumv. stjórnarinnar. En um hinn skólann hefir ekki legið fyrir skýrsla fyr en nú nýlega, að hún kom með síðasta pósti að norðan. Eg býst við, að þingmenn hafi ekki getað kynt sér hana enn til hlítar, og því ástæða fyrir mig, að fara um þetta nokkrum orðum.

Háttv. vinur minn, 1, þm. Rvík. (J. Þ.), mælti til mín þeim sæmdarorðum, að eg væri kvennavinur; það var að vísu hið mesta hól, en eg vona þó, að eg eigi þetta heiti skilið.

Mér virðist, að þegar um jafnrétti karla og kvenna er að ræða, þá sé það meira í orði en á borði, sem að kvenfólkinu er ætlað. Nú munu þeir færri, er mótmæla því, að konur eigi jafnan rétt (á við karlmenn) til kosninga, og eigi yfir höfuð eitt yfir þær að ganga og karlmenn, að því er réttindi snertir,

Mér virðist, að það sé orðin tízka fjöldans, að viðurkenna þetta, en hver verður svo raunin á, þegar til framkvæmdanna kemur?

Mentastofnanir fyrir kvenfólk eru fáar, og afar-mikill munur hefir verið á því, sem lagt hefir verið til sérskóla karla og kvenna.

Styrkurinn til kvennaskólanna er ekki meiri en 100 kr. á móti 1000 kr., er til hinna eru veittar.

Þegar menn eru nú komnir svo langt, að viðurkenna í orði jafnrétti karla og kvenna, þá er líka kominn tíminn til, að menn viðurkenni það í verkinu, og veiti þeim mentastofnunum, er konum eru ætlaðar, jafn ríflegan styrk og öðrum.

Skýrslan, sem eg vildi gefa er fólgin í áætlun stjórnarnefndar kvennaskólans á Blönduósi.

Skal eg með leyfi hæstv. forseta, lesa upp kafla úr henni — þó ekki nákvæmlega sundurliðaða, heldur aðalatriðin:

a) Laun 5 kenslukvenna, þar á meðal forstöðukonunnar, og fæði kr. 2300, »

b) Til vinnumanna og vinnukvenna, með fæði ... — 810, »

c) Afborgun og vextir af lánum .... — 886,50

d) Eldsneyti .... — 1200, »

e) Ljósmeti .... — 300, »

f) Brunabótagjald ... — 262,50

g) Lóðargjald . . . — 25, »

h) Viðhaldskostnaður ... — 500, »

i) Til bókakaupa, blaðakaupa og óvissra útgjalda — 300, »

Samtals kr. 6584, »

Í sambandi við þessa skýrslu kemst forstöðunefnd kvennaskólans á Blönduós svo að orði í skjali, sem hún sendi okkur þm. Húnavatnssýslu:

»Eins og skýrslan um óhjákvæmileg gjöld skólans á yfirstandandi ári sýnir, þá er það öldungis óefanlegt, að hjá engum þar greindum útgjöldum verður komist, eða úr þeim dregið á nokkurn hátt, en hins vegar þyrftu þau, ef vel væri, meiri að vera, því ýmislegt þyrfti til skólans að kaupa, sem of langt yrði hér upp að telja.

Viðvíkjandi skólanum sjálfum eða aðsókn að honum, skal það fram takast, að hann hefir verið svo ákaft sóttur á seinustu árum, að hann hefir verið alveg fullskipaður, svo að þar hefir ekki verið hægt að taka á móti fleirum, og stundum hefir beinlínis orðið að neita viðtöku. — Bendir þetta ljóslega á það, hve miklum vinsældum skólinn á að fagna, og þegar litið er á meðfylgjandi skýrslu um nemendur skólans úr ýmsum sýslum landsins síðastliðin 7 ár, þá sést það, að skólinn hefir verið sóttur af nemendum úr 16 sýslum landsins.

Í þessu er beinlínis sönnun fólgin, sem hver og einn getur þreifað á, að skólinn er stofnun, sem all-mikla þýðingu hefir fyrir þjóðfélagið, svo framarlega, sem það verður ekki í efa dregið, að það, að auka kvenmentunina, er þýðingarmikið framfaraskilyrði fyrir þjóðina í heild sinni«.

Þeir sem þetta segja eru þjóðkunnir merkismenn, sem taka alls ekki of djúpt í árinni eða fara með rangt mál. Þvert á móti fara þeir of stutt, þar sem þeir ætla ekkert til áhaldakaupa til skólans, eins og gert er við alla aðra skóla, og ekkert heldur til þess, að gera við grunnmúr skólans, sem mér er kunnugt, að bilað hefir og óhjákvæmilegt er, að gera við nú þegar. Ennfremur vil eg benda á það, að nauðsyn væri til, að setja vatnsleiðslu í skólann, sem gera mætti nú með tiltölulega litlum kostnaði, vegna þess, að búið er að reisa sláturhús með vatnsleiðslu ekki all-langt frá skólanum, sem setja mætti skólavatnsleiðsluna í samband við. Þetta, sem eg nú hef nefnt mundi kosta að minsta kosti 600 kr.

Þar sem drepið er á, að neita verði um inntöku í skólann vegna rúmleysis, þá er það rétt. Nú á síðari árum, þá hefir stundum orðið að neita 10—20 stúlkum árlega um inntöku. Þess vegna væri full ástæða til, að auka við bygginguna, en fram á það er þó ekki farið.

Það eru víst ekki deildar meiningar um það, að skólinn hafi gert gagn, og að það gagn sé alment, sést af skýrslunum, og þótt farið sé lengra aftur í tímann, en gert er í þessari skýrslu, þá kemur það sama fram, að aðsóknin hefir verið almenn af landinu, t. d. vil eg benda á, að hann hefir, eins og skýrslan ber með sér, verið sóttur mjög mikið úr Múlasýslum, Þingeyjar-, Dala-, Ísafjarðar-, Mýra- og Strandasýslum, alt af stöðugt margar námsmeyjar úr öllum þessum sýslum auk nærsýslnanna.

Þetta er aðallega það, sem eg vildi vekja athygli þeirra manna á, sem ekki hafa haft færi á að kynna sér málið.

Þá vil eg leyfa mér að víkja að því, sem háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði. Hann furðaði sig á því, að eg skyldi geta léð nafn mitt til að skrifa undir niðurfærslu á styrknum til kvennaskólans í Rvk. Með því meinar hann það, að eg hef skrifað undir fjárlaganefndarálitið. Hann þekkir það að sjálfsögðu, að það fæst ekki æfinlega, er menn óska sér helzt, en þá verða menn að sætta sig við, að taka það næst bezta. mín skoðun er, að hvorugur skólinn hafi beðið um meira en þeir þurftu, og því réttast að veita þeim það fé, sem þeir fara fram á, en fjárhagurinn er því á þann veg, að fjárlaganefndin varð að draga úr því sem farið var fram á í fjárbeiðnunum, og því taldi fjárlaganefndin sér ekki fært að verða að fullu við fjárbænum skólanna.

Eg verð að halda fast við það, að ekki sé ástæða til að gera upp á milli skólanna, og eg verð að álíta þá jafn réttháa, hvað fjárframlög snertir. Það eru heldur ekki eftir svo margir skólar út um landið, að nokkur ástæða sé til þess að hafa þá fyrir olbogabörn.

í þessu sambandi vil eg leyfa mér að taka það fram, að Blönduósskólinn er mikið ódýrari fyrir nemendurna, en nokkur skóli í kaupstað getur verið. Hver námsmey hefir áður borgað fyrir sig 120 kr. í 7½ mánuð á Blönduósskóla, en nú hefir það síðustu árin verið fært upp í 135 kr. Það þarf ekki að bera þetta gjald saman við það, sem nemendur verða að greiða í kaupstöðunum, því þar verður það mikið hærra, varla undir 300 kr. fyrir jafnlangan tíma. Þessi skóli hjálpar því mörgum fátækum stúlkum til að stunda nám, sem engin efni hafa til að kosta sig á dýra skóla í kaupstöðum.

Þá má og líta á það, að það er mikilsvert, að reynt sé að stýfla fólksstrauminn úr sveitunum í kaupstaðina, og enginn vafi er á, að það verði gert að nokkru með því, að halda við í sveitunum bændaskólunum og kvennaskólunum; þeir draga áreiðanlega ofurlítið úr þeim straum.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) gerði mikið úr aldri kvennaskólans í Rvk., en þótt eg á engann hátt vilji hnekkja honum, þá vil eg þó leyfa mér að benda þm. á það, sem þeir máske vita ekki, að kvennaskólinn á Blönduósi er næstum jafn gamall. Hann er stofnaður 1875, en tók fyrst fullkomlega til starfa 1879. Kvennaskólinn í Rvk. mun hafa byrjað um 1870, svo þeir eru nærri jafnaldrar.

Eg get ekki betur séð, en það komi fram dálítil ósamkvæmni hjá háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), þar sem hann vill gera kvennaskólann hér að aðalskóla, af því hann sé í Reykjavík, en í sömu ræðu var hann að mæla móti því, að kennaraskólanum hafi verið dembt í Rvk., vegna þess að ekki sé rétt að flytja alla skóla í kaupstaðina.

Hvers vegna er þá rétt að gera kvennaskólann í Rvk. rétthærri en annan samskonar skóla í sveit? Blönduósskólinn er að vísu nærri kauptúni, en Blanda skilur þó á milli, og engin líkindi til að hann lendi í kaupstaðarþyrping langa lengi.

Eg lít svo á, að ekki megi heldur ganga fram hjá því, að Húnavatnssýsla hefir sýnt mikinn dugnað og lagt mikið á sig, til stofnunar og viðhalds skólanum. Hún hefir árlega veitt til hans allmikið fé og nú síðast 600 kr. úr sýslusjóði, þrátt fyrir það þótt sýslan hafi mörg önnur stór útgjöld. Auk þess hafa sýslubúar stutt skólann á margan hátt, bæði með samskotum, hlutaveltum o. fl. Þannig hefir skólinn smátt og smátt getað eignast rúmföt, hljóðfæri og ýmislegt annað, sem hann þarfnaðist. Gjöldin, sem sýslubúar hafa greitt til skólans eru því mikil, og þó hafa þeir als ekki talið þau eftir.

Þegar litið er á þetta og um leið hið almenna gagn, sem skólinn gerir, þá get eg ekki betur séð, en að hann hafi alveg eins mikinn rétt til fjárstyrks úr landssjóði og skólinn í Rvk. eða hver annar skóli.

Eg ætla ekki að tala fleira um þetta mál og finn ekki ástæðu til að fara út í mörg önnur einstök atriði, en úr því eg er staðinn upp, vildi eg nota tækifærið til að víkja fáeinum orðum að ræðu hæstv. ráðh. og háttv. þm. Vestm. (J. M.). Eg get ekki verið þeim samdóma um styrkinn til barnaskólanna í kaupstöðum. Fjárveiting þessi stóð í fyrsta sinn á fjárlögum síðasta þings, en áður var að eins veittur styrkur til barnaskóla utan kaupstaða. Hæstv. ráðh. mælti á seinasta þingi móti þessari fjárveiting og sagði, að það væri ný stefna Þetta er að mínu áliti alveg rétt, og þess vegna álít eg einnig að það eigi að lækka fjárupphæðina, sem farið er fram á í stjórnarfrumv., það er ólíkt hægra fyrir aðstandendur og foreldra barna í kaupstöðum, að afla börnum sínum mentunar heldur en í sveit. Kaupstaðarbúar þurfa ekki að kosta börn sín sérstaklega, en geta haft þau heima eftir sem áður, þótt þeir láti börn sín ganga á skólann, en í sveitunum verður allur fjöldi foreldra að koma börnum sínum í burtu og kaupa fæði og þjónustu handa þeim. Ennfremur verða skólabyggingarnar dýrari í sveitunum vegna aðflutnings á efni og líka þess, að húsin verða að vera smærri og fleiri, með því að ekki er hægt að safna mörgum börnum saman á einn stað.

Þótt fræðslulögin auki kostnað við barnafræðsluna í kaupstöðum mega menn ekki gleyma því, að þetta sama gildir fyrir sveitirnar, og þær standa miklu ver að vígi; kostnaðaraukinn verður þar tiltölulega þungbærari.