20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (1062)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Stefán Stefánsson:

Það er alls ekki óeðlilegt, þótt allmikill ágreiningur verði um þær ýmsu bitlinga-upphæðir, sem fyrir liggja, ekki sízt, þegar litið er á, hvernig þingið nú er skipað, að því er hina pólitísku flokkaskiftingu snertir. En það, sem að mínu áliti gerir umræðurnar óhugðnæmar er, hversu nöfnum einstakra manna er fléttað inn í þær. En eina leiðin til þess, að koma í veg fyrir alt þref og þjark er sú, að myndaður verði sérstakur sjóður, sem eingöngu yrði varið til að styrkja lista- og vísindamenn, en verði að öðru leyti landssjóði óviðkomandi, og að landsstjórninni eður sérstakri nefnd manna væri falið, að veita styrki af sjóðnum. Þetta er alls ekki nein ný hugmynd, hún er fyrir löngu fram komin, og svo drap hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) á þessa breytingu.

Það er ekki meining mín, að hafa horn í síðu listamanna og vísinda, en sú hugsun hlýtur að gera vart við sig og krefjast lausnar: hvar á staðar að nema með fjárframlög og fjáreyðslu til slíkra manna? Eg skal alls ekki því neita, að ákjósanlegast væri, að geta styrkt alla þá menn í baráttunni fyrir lífinu, sem annars eru viðurkendir af þjóðinni, sem afburðamenn hennar í listum og vísindum, en við höfum af svo litlu að miðla, að við verðum að takmarka okkur, en ekki láta tilfinningarnar hlaupa með okkur í þær ógöngur í fjármálunum, að við sjáum ekki gjaldþoli þjóðarinnar og hennar nauðsynjamálum nokkurn veginn sómasamlega borgið. Einhversstaðar verður þó staðar að nema, en hvar? Það er sú mikla og vandasama spurning.

Á fjárlögunum fyrir yfirstandandi fjárhagstímabil eru 3 ljóðskáld, sem ákveðið er að greitt sé hvort árið 3600 kr., og hefi eg litið svo á, að þingið mundi hika sér við, að bæta fleirum á þann lista. Fari þingið að setja enn fleiri skáld á fastan styrk úr landssjóði, er það komið út á svo hálan ís, að ekki er auðvelt að sjá, hvar staðar skal nema. Við eigum svo mörg ljóða- og söguskáld, sem fullkomið álitamál er um, hvort nokkuð standa að baki sumum þeim, sem nú er lagt til, að tekin verði upp á fjárlögin, að hver þingmaður hlýtur að hafa tilfinningu fyrir því, að viðurkenningin fari ekki alskostar eftir því, sem hver á skilið. Eg skal t. d. nefna þingeysku skáldin: Þorgils gjallanda og Sigurð Jónsson. Fleiri mætti telja, en þessi nöfn eru næg til að sýna, hvað takmörkin eru vafasöm, eigi að fara að setja fleiri skáld á föst laun af landsfé en þegar eru á fjárlögunum. En alla þessa menn er þó ekki hægt að launa. Það er yfirleitt ekki heldur heppilegt eða heilbrigt fyrirkomulag, að setja menn, þótt þeir geti skrifað og ort margt fagurt, á föst laun, sem þeir svo njóta, hvort þeir yrkja mikið eða lítið eða jafnvel ekki neitt, því það er reynsla fyrir því, að komist fjárveitingar til einstakra manna inn á fjárlögin fyrir bæði ár fjárhagstímabilsins, þá verður henni ekki kipt þaðan aftur, þótt árlegt starf sé lítið eða jafnvel ekki neitt. En þegar svo er komið, þá verður ekki lengur hægt að skoða fjárveitinguna sem eðlilega viðurkenningu, heldur sem nokkurs konar nauðungargjald, eða kvöð, sem þingið þykist ekki geta afnumið, og má þar af leiðandi virðast lítið ánægjuefni fyrir þann sem nýtur, því þótt hann hafi samið listaverk, eftir að þessi fasta fúlga til hans komst inn á fjárlögin, þá getur hann venjulega ekki skoðað hana sem neina sérstaka viðurkenningu fyrir eitt sérstakt verk lengur og þannig veikist áhuginn fyrir því að semja listaverk.

Nei, það ætti óneitanlega betur við, þegar eitthvað kemur frá skáldunum, sem þykir afburða gott skáldverk, að þingið þá veiti þeim ríflega fjárupphæð í viðurkenningarskyni, því mundi þjóðin betur una en þeirri, að mér liggur við að segja óhæfilegu leið, sem útlit er fyrir að þingið ætli nú að ganga inn á. Þjóðin hefir áður vítt þá aðferð og ef allur þessi styrkur til skáldanna verður samþ., sem farið er fram á í hinum ýmsu breyt.till., þá hygg eg að þingið fái fullkomna vanþökk fyrir það starf sitt. Annars skal eg í sambandi við þessar fjárveitingar, er eg drap á, þegar sérstakar ástæður benda til, minnast á þá fallegu gjöf til Þorsteins Erlingssonar, sem honum var gefin á 50 ára afmæli hans. Eg þykist mega fullyrða, að þó þingið veitti fé við einstök lík tækifæri, viðurkendum listamönnum, þá hefði þjóðin ekkert út á það setja, en að margir séu settir á föst laun að nauðsynjalausu hlýtur að verða misjafnlega liðið, sem eðlilegt er, þegar við á sama tíma ekki getum veitt atvinnuvegum vorum hálfa þá hjálp eða stuðning, sem þeir með þurfa.

Þá vil eg að eins lítið eitt minnast á breyt.till. háttv. þm. Dal. (B. J.) þar sem lagt er til að fella skuli út af fjárlögunum alt tillag til Hvítárbakkaskólans. Þetta þykir mér í fylsta máta ósanngjarnt, þegar þess er gætt, að skólinn er stöðugt að ávinna sér traust og álit þeirra manna, er hann þekkja bezt, og sami maður og verið hefir alla stjórn skólans á hendi, sem bæði fær mikið lof sem kennari, og hefir lifandi áhuga fyrir því, að skólinn geri sem allra mest gagn. Nú eru á skólanum 32 nemendur, en auk þeirra sóttu 11 piltar um inngöngu á skólann, sem öllum varð að neita sökum plássleysis. Þetta sýnir í hvaða áliti skólinn er, og hvað það væri fráleitt, að hætta nú í miðju kafi að leggja honum nokkurt fé. Skólinn er að mestu leyti rekinn fyrir fé einstaks manns, skólastjóra, og hann hefir lagt þar fram aleigu sína til almennra þarfa og hann vill gera það að lífsstarfi sínu, að fræða þá, er skólann sækja og sem sagt veita skólanum alla góða forstöðu. Eg verð því að vera eindregið með því að hann fái það tillag til skólans sem honum er ætlað í fjárlagafrumv. stjórnarinnar, sem eru 1500 kr. hvort árið, því eftir þeim upplýsingum, er eg hefi fengið, og sem eru öldungis áreiðanlegar, þá er það víst, að skólinn þarf, ef vel væri, talsvert meira fé, en nú er ekki um stærri fjárupphæð að ræða, og þess vegna líklegt, að henni verði ekki synjað. Skólahúsið sjálft kostaði forstöðumanninn 10,000 kr. og kenslutæki hafa auk þess numið allmiklu fé, og þegar þess er gætt, að hann hefir kostað svo miklu til í trausti til styrks af hálfu hins opinbera, þá verð eg telja það eiga mjög illa við, ef nú væri kipt fótum undan stofnuninni og skólastjóra þannig kastað út á hjarnið.

Viðvíkjandi styrknum til Jóns Ólafssonar til þess að semja og búa undir prentun íslenzka orðabók með íslenzkum þýðingum, þá verð eg að líta svo á, að þar sem hér liggur fyrir þinginu álit M. Hægstad, próf. í norrænu, A. Torp, próf. í samanburðarmálfræði, sem báðir eru kennarar í Kristjaníu, og einnig hins mikilsvirta málfræðings okkar Finns próf. Jónssonar, auk fleiri manna, sem við verðum að viðurkenna að bezt skyn beri á þessa hluti, og þeir álíta það sem þegar er samið af bókinni mjög vel af hendi leyst, að þá geti ekki verið neitt áhorfsmál, að veita styrkinn, þótt hann sé ekki nema 1500 kr. hvort árið í fullu trausti þess, að semjandi bókarinnar álíti hann þó ekki svo lágan, að hann þess vegna geti ekki komið að tilætluðum notum. Eg sé því síður ástæðu til að svifta hann þessum styrk, þar sem hann nú um nokkur undanfarin ár hefir unnið að þessu verki og það lengst af styrklaust, og sýnt, að menn geta vænzt eftir góðum árangri, þar sem hann býst við að hafa fullbúið til prentunar 30 arkir af bókinni á næsta nýári. Því hefir enginn neitað að þetta verk sé mjög gagnlegt og verði til þess að prýða vorar bókmentir, svo eg fæ ekki betur séð, en að það væri mjög illa farið, ef menn nú ætla að koma í veg fyrir, að þetta ritverk geti orðið fullsamið og gefið út.