24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ráðherrann (H. H.):

Það er að eins lítil aths. við 19. gr., sem eg vildi gera. Það er fjarri því að mér sé það nokkuð kappsmál, hvort tillag þetta verður felt eða ekki, en því fer fjarri, að það sé rétt að þetta ákvæði viðurkenni rétt Dana til landhelginnar íslenzku, að það þvert á móti hefir verið til þess að losa um þá skoðun, að Danir eigi landhelgina. Þegar fram kom tillaga í fólksþinginu danska þess efnis, að við borguðum eitthvað fyrir landhelgisvörzluna, þá hlaut það að stafa af því, að þeir álitu að íslenzka landhelgin væri þeim óviðkomandi og þeir væru ekki skyldir til að verja hana endurgjaldslaust, og þingið réð því af að samþykkja þetta, að það áleit að Danir væru ekki skyldugir til þess að verja okkar eigin landhelgi án endurgjalds. Að sektirnar renni í ríkissjóð Dana, er ekki rétt. Þær renna í landssjóð, en lögin ákveða að upphæð, sem svarar 2/8 af sektarfénu, skuli greidd í ríkissjóð Dana, og því fer svo fjarri, að þetta sé til að slá til jarðar sjálfstæði okkar, að það þvert á móti eykur það að miklum mun. Annars skal eg ekki blanda mér í það, hvað deildin gerir í þessu máli.