01.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jóhannes Jóhannesson:

Háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) þarf eg ekki að svara neinu verulegu, enda er hann dauður sem kunnugt er, og má því ekki hreyfa við honum eða segja neitt, er geti gefið honum tilefni til andmæla. Hann bar ekki á móti því, sem eg sagði í gær; þau orð mín standa því óhögguð.

Hins vegar vildi hinn háttv. þm. (B. Þ.) drótta því að mér, að atkvæðagreiðsla mín í aðflutningsbannsmálinu hefði komið í bága við loforð það, er eg hefði gefið kjósendum mínum í því efni. Þó var hann svo réttsýnn að færa sjálfur sönnunina fyrir hinu gagnstæða, þar sem hann las upp spurningar þær, er fyrir mig höfðu verið lagðar í því máli, og svör mín gegn þeim, og sýndi þar með ljóslega, að eg í því máli greiddi einmitt atkvæði eins og við var að búast eftir svörunum.

Mér hefir verið sagt, að háttv. frsm. fjárlaganefndar (Sk. Th.) hafi í gær farið ómjúkum orðum um mig meðan eg var fjarverandi, hafði gengið út úr þingsalnum litlu áður. Eg hefi nú farið þess á leit við hinn háttv. frsm., að hann segði mér efni ræðu sinnar, en hann hefir neitað því, og má hann því sjálfum sér um kenna, ef eg hefi nú ekki orð hans rétt eftir.

Hinn háttv. frsm. (Sk. Th.) hafði sagt, að eg hefði svikið loforð mín við kjósendur í bannmálinu, að mér hefði farist ódrengilega, og að slík aðferð réttlætti hrossakaupatilboð háttv. þm. Sljk. (B. Þ.) til mín. En þetta afsakar engan veginn hrossakaupatilboð háttv. þm. Sfjk. þótt satt væri, því það er nú orðið upplýst, að hann hefir snúið sér á líkan hátt til samþingismanns míns (J. J.) Er nú þetta rétt hermt, háttv. framsm.? (Skúli Thoroddsen: Svona hér um bil).

Enda þótt þetta væri væri alt saman rétt, þá afsakar það alls ekki þm. Sfjk. (B. Þ.) því að hann hefir beinst þannig að fleirum en mér. Háttv. frsm. (Sk. Th.) hlaut því að vera það kunnugt, að þessi aðdróttun var með öllu tilhæfulaus — þm. Sfjk. (B. Þ.) var búinn að færa sönnur á það sjálfur, áður en háttv. frsm. (Sk. Th.) tók til máls. Þetta hlýtur því að vera vissvitandi blekkingartilraun frá hans hálfu.

Þegar eg nú hefi lesið upp spurningar þær, er fvrir mig voru lagðar í bannlagamálinu og svör mín við þeim, vil eg spyrja hinn háttv. frsm. (Sk. Th.), hvort hann geti neitað því, að við atkvæðagreiðsluna um það mál í haust hafi komið fram mótmæli alþingiskjósenda, mótmæli, er sýna og sanna, að verði bannlögin samþykt á þessu þingi, þá verða þau þvingunarlög, bæði gegn þeim, sem greiddu þar atkv. á móti, og hinum, sem ekki gafst kostur á að mótmæla? Getur hann haldið því fram, að meiri hluti kjósenda minna hafi skorað á mig að gerast flutningsmaður þessa máls?

Eins og allir vita, er hinn háttv. framsm. (Sk. Th.) nú í öngum sínum, og lái eg honum það ekki, því það er ætíð hart fyrir veraldlega sinnaða menn að verða fyrir vonbrigðum um tímanlega upphefð, og vanþakklæti þessa heims barna. Það er því ekki meira en skylda mín og vor allra að fyrirgefa honum mikið.

En það er þó oflangt farið, að minni hyggju, og eg vona að hin háttv. deild sé mér þar samdóma, þegar ráðist er á fjarverandi mann með ærumeiðandi, órökstuddum og gersamlega tilhæfulausum aðdróttunum.