05.05.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Ari Jónsson:

Mér þótti háttv. 5. kgk. þm. gerast nokkuð digurmæltur, en fanst þó kúlumar, sem hann þeytti, vera nokkuð sápukendar. Það er ekki hyggilegt, að ráðast eins og háttv. þm. gjörði, á einstaka menn og flokka með meiðandi stóryrðum. Hann brúkaði ekki að eins meiðandi orð, heldur og ósönn. Hann sagði, að Landvarnarflokkurinn væri ekki og hefði aldrei verið sérstakur flokkur, heldur hefði hann ávalt haft sömu stefnu í öllum málum, sem Þjóðræðisflokkurinn. Segir háttv. þm. að landvarnarflokkurinn hafi verið á sama máli og þjóðræðisflokkurinn árið 1903? Menn vekja ekki traust til sín með slíkum staðhæfingum. — Ummæli háttv. þm. um Þingvallafundarályktunina voru eintómir útúrsnúningar. Það sem meiri hlutinn heldur fram hér á þingi, er í fylsta samræmi við Þingvallafundarályktunina. Um það býst eg við, að eg sé fult eins fær að dæma og háttv. 5. kgk. þm. Það er lítil bót í því, að hafa setið í millilandanefnd eða hlotið nafnið lagaskólastjóri, þegar menn koma með svo frámunalegar skýringar. Eg leit nýlega í bók með skýringum eftir ýmsa menn, þar á meðal háttv. 5. kgk. þm.; þær skýringar báru ekki vott um mikinn lagaskilning. Eg er að vísu að eins ungur kandidat í lögum, en þó held eg að eg geti komið með fullskýrar athuganir um þær skýringar, sem hann hefir gefið. — Eg tek það fram út af því sem háttv. 4. og 5. kgk. þm. hafa sagt, að það var rétt sagt hjá mér, að grundvöllurinn undir kröfum minni hlutans var allur annar fyrir ári en nú. Þá bygði hann á sögulegum rétti okkar, en nú á réttleysi okkar. Þetta kemur líka skýrt fram í frumvarpi hans.