23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (1237)

87. mál, vantraust á ráðherra

Björn Jónsson:

Kvað fyrst hafa komið til orða, eftir bending hæstv. ráðgjafa, að vantraustsyfirlýsing þessi væri borin upp í sameinuðu þingi. En meiri hluti flokks þess, er ræðum. fylti, feldi sig betur við, að tillagan um hana væri borin upp í deildunum, þótt tvíverknaður væri. Enda mætti vel komast hjá því, ef ráðgjafi vildi láta sér lynda atkvæði þessarar deildar, svo sem ræðumanni hefði skilist í einslegu viðtali þeirra í milli, að hann mundi gera, ef ábyrgst væri, að sambandsmálið sjálft kæmi til umræðu í efri deild á þessu þingi, en gerði hvorki að falla hér né daga uppi, og að meiri hluti í efri deild væri sama sinnis um vantraustið, sem meiri hlutinn hér; og kvaðst ræðumaður geta ábyrgst hvort tveggja fyrir flokksins hönd.

Hann (B. J.) kvað sér hefði verið miklu ljúfara, að ekki hefði þurft að verða langar né harðar umræður um þessa tillögu, — harðar í hans garð, ráðgjafans, úr því að hann væri nú þess albúinn, að beiðast lausnar, er hann vissi fyrir víst vilja meiri hlutans á þingi, því svo væri hann viðkynningargóður og öllum kær sjálfur, er hann þektu til muna, vinum og óvinum í stjórnmálaskoðunum, að hann (B. J.) gæti borið það um einn að minsta kosti meðal hans allra-ákveðnustu mótstöðumanna, að þrátt fyrir langa og vægðarlitla viðureign þeirra í milli hefði þeim hinum sama aldrei getað orðið nema fremur vel við hann en hitt.

Ekki vel hægt að hafa vantraustsyfirlýsinguna vægara orðaða en þetta, ef hún átti að verða rökstudd; en þess mundu liðsmenn ráðgjafans hafa krafist í umræðunum, hvað sem honum leið sjálfum, ef því hefði verið slept í tillögunni sjálfri. Um orðið vítaverða væri það að segja, að það vissi allir sæmilegir íslenzkumenn, að merkti sama sem aðfinsluverður, og gæti þeir ekki látið vanþekking hinna aftra sér frá, að komast rétt að orði.

Varnarræða ráðgjafa í dag hefði skifst í tvo kafla: um ógreinileg kosningarúrslit í haust, og mótmæli gegn áburði um margar vítaverðar stjórnarráðstafanir hans embættistíð.

Hann styddist í fyrra atriðinu við rammskakka skýrslu í öðru málgagni hans hér í haust um atkv. með Uppkastinu og móti um land alt. Munurinn hefði verið miklu, miklu meiri en þar hefði staðið. Svör hinna og þessara kjósenda, er hann hefði átt tal við á ferðum sínum hér um land væri og nauðalítið að marka; hefði fæstir getað svarað einu orði við tíu hans, svo rökfimur sem hann væri og aðlaðandi í einslegu viðtali. Þeir gætu hafa verið frumvarpsandstæðingar alt um það, enda mundu hafa sýnt það í kosningunum. Að öðru leyti kvaðst hann verða að segja það um hlutdeild ráðgjafa í kosningabaráttunni í sumar, að það mundi mæla óhlutdrægir menn, að hann hafi lagt mikið ofurkapp á, að halda á lofti kostum sambandsfrumvarpsins. Sú staðhæfing hans, að frumvarpsandstæðingar hefðu viljað villa alþýðu manna sjónir, hún mundi reynast í þeirra augum stórum réttmætari, ef henni væri snúið alveg við, og sagt, að það væri frumvarpsmenn, hann og hans fylgismenn, er það hefði gert.

Þá vildi hann minnast á þá fullyrðing, að ekkert mundi hafast út úr Dönum, ef þessum kostaboðum væri hafnað. Hvaðan kæmi þeim sú vizka. Vér þektum orðið þessi haglkorn danskra hótana, er jafnharðan hefði bráðnað og orðið að hégóma. Afhögg hefði t. d. verið lengi um það, að vér fengjum innlendan ráðgjafa; fyrir 5 árum hefði hann fengist með orðinu. Oss hefði ekki orðið mikið ágengt í stjórnmálabaráttu vorri, ef vér hefðum jafnan látið undan þess kyns hótunum.

Um val kg.kjörnu þingm. tveggja hinna síðustu: að ekki yrði það varið með því, þótt þeim hefði hlotnast mörg atkvæði við kosningarnar. Ráðgjafi teldi sanngjarnt, að þeirra kjósendur, kjósendur í minni hluta, fengi líka sína fulltrúa á þing! Hvort hvert kjördæmi á landinu ætti þá að senda einhvern minni-hluta fulltrúa á þing með hinum?

Frummælandi hefði rökstutt til fullrar hlítar aðfinslur vorar að stjórnaratferli ráðgjafans hans embættistíð, og furðaði sig sérstaklega á því áræði hans og þm. Vestm. (J. M.), að bera alveg af sér flokksfylgi og hlutdrægni í embættaveitingum og sýslana, er öll þjóðin hefði fyrir sér önnur eins dæmi og þau, hvernig Páli heitnum Briem var bægt frá upphaflega fyrirhugaðri bankastjórastöðu við hlið hr. E. Schou einum, með því að snúa aftur skipunarbréfi hans á miðri leið til þess að koma að miklu síðri manni í þá stöðu, er var flokksmaður ráðgjafans, þótt mætur maður væri að öðru leyti; eða dæmið um veitingu ráðsmannsstöðunnar við Laugarnesspítala, manni, sem hafði þjóðkunnan annmarka, er gert hefir hann að óhlutdrægra manna dómi óhæfan í þá stöðu fyr og síðar, þótt um hana hefði sótt í móti fjöldi mjög vel hæfra manna, þar á meðal annar eins maður og fyrri þm. Skagf. (Ól. Briem), — ábyrgðina fyrir þetta ætti vafalaust að leggja á herðar ráðgjafanum, þótt svo nefnd spítalastjórn veitti stöðuna að nafninu til; um bókarastöðuna við landsbankann, er veitt hefði verið móti tillögum bankastjórnarinnar austfirzkum kosningasmala stjórnarmanna, en sá settur hjá, sem bankastjórnin mælti með og var í bankans þjónustu áður. Þessi dæmi væri ekki nema fá af mörgum og væri hér til nefnd vegna framkominna ótrúlegra áræðinna mótmæla gegn mjög svo réttmætum hlutdrægnisásökunum og flokksfylgis á hendur ráðgjafanum; mundu hafa verið látin liggja í milli hluta annars kostar. Því ekkert kvað ræðumaður sér hugleiknara, en að hagnýta sem mannúðlegast og friðsamlegast meiri hluta vald það, er hann færi nú með og hans flokksmenn, ólíkt því sem mörgum fyndist gert hafa verið, meðan minni hlutinn, sem nú er, var í meiri hluta.

[Ræðan tekin eftir »Ísafold« 27. febr. 1909].