23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

87. mál, vantraust á ráðherra

Björn Sigfússon:

Það var háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), sem neyddi mig til að biðja um orðið. Á honum sannast það, að hægra er að kenna heilræðin, en halda þau. Hann vítti hv. þingm. Barðstr. (B. J.) fyrir það, að hann hefði talað ósæmilega um fjarverandi menn, sem þó var þannig lagað, að beint tilefni var gefið, að nefna það. En svo gerði hann (J. Ól.) sig sjálfur sekan, ekki í því sama, heldur í því, sem var miklu verra. Hann velti sér með óhróðri og illmælum yfir fjarverandi menn norður í Húnavatnssýslu, sem engan kost eiga á, að bera hönd fyrir höfuð sér, sagði að þar hefðu verið »falsaðar« undirskriftir undir áskoranir í ritsímamálinu. Þessu mótmæli eg harðlega, og tel hann minni mann fyrir áburðinn. Enn fremur sagði hann, að þessum áskorunum hefði verið »stolið« hér af lestrarsalnum. Það má hann bezt vita, ef hann hefir gert það sjálfur. Ekki gátu menn norður í Húnavatnssýslu gert það.

Fyrri hlutinn af ræðu þessa þingmanns, eins og nokkuð af ræðu háttv. þm. Vestm. (J. M.) var ekkert annað en málsfærsla fyrir þá danska stjórnmálamenn, sem mest klifa á réttleysi voru. Á þessum síðustu og verstu tímum eru þeir Íslendingar sorglega margir, sem ganga þannig erindi Dana. Fá þeir auðvitað danskar þakkir fyrir, en óþökk allra góðra Íslendinga.

Úr því eg stóð upp á annað borð, þá get eg ekki stilt mig um, að víkja máli mínu að háttv. 2. þingm. Rangv. (E. J.). Skal eg að vísu ekki eltast við margt af því, sem hann sagði og engra mótmæla þarf — það voru bara orð, orð — — — — innantóm. Hann var að tala um það, að hann sæi enga ástæðu til, að ráðh. færi nú frá. Getur að vísu verið, að gott sé fyrir hann, að hafa þá skoðun, því að þá getur hann verið rólegur, þótt í minni hluta sé.

En hins vegar verður ekki annað dæmt af orðum hins háttv. 2. þingm. Rangv. (E. J.), en að hann hafi als enga hugmynd um þingræði; ætlast líklega ekki til, að ráðh. víkji nokkru sinni fyrir meiri hluta þjóðarinnar.

Hann spurði, hvað við nýju þingmennirnir ætluðum að gera í þessu máli. Það skal eg segja honum. Vér erum allir meiri hluta menn ráðnir í því, að varðveita þingræðið í hvívetna, þvert á móti stefnu minni hlutans.