14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (1390)

9. mál, ellistyrkur

Framsögumaður (Jón Magnússon):

Eg ætlaði eiginlega ekki að segja neitt við þessa umr. Eins og málið liggur nú fyrir, þá er það að mestu óbreytt og eins og það kom frá nefndinni í Ed., og í nefndarálitinu hefir hún gert grein fyrir breytingum sínum og því er engin ástæða til þess að telja þær upp aftur.

Eg sé að br.till. er komin fram við þessa umr., sem fara í þá átt, að breytt sé skilyrðunum fyrir styrkveitingu úr sjóðnum. Eg hefi ekki getað borið mig saman við meðnefndarmenn mína um þetta atriði, en eg hygg þó að mér sé óhætt að lýsa því yfir fyrir nefndarinnar hönd, að hún sé mótfallin br.till.

Það var meiningamunur á milli þingsins 1907 og stjórnarinnar um það, hvort lögin ættu einungis að ná til þeirra manna, sem fyrir ellilasleika gætu ekki unnið sér fyrir brauði, eða hvort þau einnig ættu að ná til þeirra, sem þyrftu á styrk að halda, þótt það væri ekki fyrir ellilasleik.

Háttv. Ed. hefir að mestu leytihallast að till. stjórnarinnar, og bundið styrkveitinguna við ellilasleika, en hún hefir þó farið dálítinn milliveg í málinu.

Eg verð að álíta, að heppilegast sé í bráðina að binda styrkveitinguna og verksvið laganna við þá menn, sem ekki geta unnið fyrir sér. Ef taka ætti þessi takmörk í burtu, þá yrði ekkert gagn að sjóðnum að minsta kosti fyrst í stað. — Eg verð því að álíta, að rétt sé að fara ekki lengra en háttv. Ed. hefir gert.

Eg skal viðurkenna að það eru að vísu engin slík takmörk sett fyrir styrkveitingu, að því er alþýðustyrktarsjóðinn snertir, en þótt það sé ekki, þá hefir það samt reynst svo í framkvæmdinni, er um styrkveitingu hefir verið að ræða úr sjóðnum. Þessi sjóður er öflugri, en fyrstu árin er hann þó ekki stærri en svo, að hann mun trautt geta komið að gagni ef þau takmörk fyrir styrkveitingum eru ekki sett, sem háttv. Ed. hefir fallist á.