18.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1141 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

89. mál, varabiskup

Ráðherrann (H. H.):

Tilgangurinn með frumv. þessu er að tryggja það, að biskupsvígsla geti ávalt framvegis farið fram hér á landi. Eins og kunnugt er, þá leyfði konungsbréf 14. ág. 1789, að biskuparnir á Íslandi gætu vígt hvor annan. En rétt á eftir var annað biskupsembættið lagt niður, og síðan hafa allir biskupar vorir verið vígðir í Danmörku nema hinn núverandi biskup, sem vígður var af fyrirrennara sínum í embættinu, eins og kunnugt er. En það stóð mjög tæpt, að það gæti lánast, og sé engin ráðstöfun gerð, þá má búast við því, að aftur reki að því, að leita verði út úr landinu um biskupsvígslu.

Í frumv. er séð fyrir því, að alt af sé til maður á Íslandi, sem geti vígt hinn nýja biskup, og gert ráð fyrir því, að þessi maður, — vara biskup gæti hann kallast — verði einhver af hinum helztu kennimönnum landsins, sem eru í embætti eða hafa verið í embætti í kirkjunnar þjónustu. Því er ekki farið fram á hærri laun en 500 kr. þóknun á ári, og er það að vísu rífleg borgun fyrir ekki meira starf, en vara-biskupi er ætlað, en gæti hins vegar orðið makleg launaviðbót fyrir einhvern merkan kennimann kirkjunnar.