16.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1285 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

36. mál, sala á Kjarna

Magnús Blöndahl:

Það sem kom mér til að standa upp voru síðustu ummæli hv. þm. S.-Þing. (P. J.) er hann tók það fram, að bæirnir ættu »einungis að eiga þá lóð, sem notuð væri til bygginga, og ekkert meira«. Þetta sýnir að hann þekkir ekki til í kaupstöðunum eða hverjar eru brýnar þarfir þeirra, sem kannske ekki er von, þar sem hann er bóndi í sveit.

Eg veit ekki, hvort hann hér með meinar það, að enginn kaupstaðarbúi megi hafa nokkra skepnu, og engan kálgarð eða annað autt svæði umhverfis hús sitt annað en götuna, en að minsta kosti virðast ummæli hans benda í þá átt. Þessi hugsunarháttur bendir aftur á það, hversu mönnum, sem búa í sveit er gjarnt á að skoða kaupstaðina í nokkurs konar spéspegli er gefi þeim svo ástæðu til að sparka til kaupstaðarbúanna. Í öðrum löndum er þessu þannig farið, að menn telja sér skylt að hlynna að bæjunum, að eg ekki tali um höfuðborgina, er flest lönd telja sér skylt að styðja og efla á allan heiðarlegan hátt.

Það hljóta allir að kannast við, að landbúnaðurinn hefir mikið gagn af kaupstöðunum, og ef kaupstöðunum gengur vel, þá er fullkomin ástæða til að halda, að landbændum vegni eftir því. Það nær þess vegna ekki nokkurri átt, að bæir eigi ekki að eiga aðra lóð en þá sem er nauðsynleg til bygginga. Eins og eg tók fram áður mættu þeir þá ekki hafa kálgarðsholu, hvað þá heldur kýr og hesta; og sjá allir hvílík fjarstæða það er. Vona að þm. hafi sagt þessi orð í fljótfærni og óhugsað, en ekki meint neitt verra með þeim.