17.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

7. mál, háskóli

Jens Pálsson:

Eg vil að eins, út af athugasemdum háttv. þm. V.-Ísf., í framhaldi af því sem háttv. 5. kgk. þm. sagði um orðið háskólakennari, bæta því við, að eg tel réttast að geyma það orð sem embættisorð þangað til við fáum þær embættisstofnanir, þar sem það á heima sem heiti á kennurum, nefnilega lýðháskóla. Þar á það heima og er í samræmi við nöfn, sem kennarar við slíka skóla hafa sem embættisheiti. Aftur er orðið aðalkennari alveg óaðgengilegt fyrir mig, af því að svo hafa verið, eru og verða nefndir kennarar við barnaskóla og unglingaskóla, þeir er aðalkenslu hafa á hendi; en þeir, sem jafnframt öðrum störfum hafa minni kenslu við slíka skóla, eru nefndir aukakennarar. Víst eru þetta virðuleg störf líka, en eg kann samt ekki við að hafa sama heiti á kennurum við lægstu alþýðuskóla landsins, sem við háskólann. Mér finst það óþolandi. En þessum heitum skilst mér háttv. þm. V.-Ísf. vilji halda, þar sem hann vill fella orðið »prófessor«.

Eg sé ekkert á móti því, að taka upp í málið alkunn evrópsk orð, sem eru notuð af öllum mentuðum mönnum um allan hinn mentaða heim, og það því síður, hafi þau verið höfð í daglegu tali á Íslandi, eins og þau sem hér er um að ræða. Þangað til Pétur Pétursson varð biskup, var hann hvarvetna hér á landi kallaður »prófessor Pétur«. »Prófessor Finnur Magnússon« er tamt á tungu hvers Íslendings. Hér er því ekki verið að taka upp nein óþekt orð. Háttv. þm. V.-Ísf. hafði sömuleiðis og jafnvel einna mest á móti orðinu »dekani«. Mér dettur í hug »djákni«, sem er því samstofna. Það er gamalt og gott íslenzkt orð, sem enginn amast við. því mætti þá ekki eins taka orðið »dekani« upp í málið. Mér þykir sannarlega vænt um tunguna okkar, en eg get ekki séð, að henni sé nokkur óréttur gjör né virðing hennar skert með því, að taka þessi orð upp í hana.

Eg var hvatamaður þess, að »kona sem karl« var skotið inn á eftir orðunum: »Hver sá« í 17. gr., og var eg það af þeirri ástæðu, að mér er ekki kunnugt, að konur hafi rétt til að taka próf við embættaskólana hér, nema læknaskólann. Mér þótti vel viðeigandi, að það yrði innleitt með lögum, að konur hefðu rétt til að stunda nám og taka embættispróf; þess verður ef til vill ekki langt að bíða, að þær fái rétt til embætta. En orðin: »Hver sá« í frumvarps-greininni mundu flestir skilja svo, sem þar sé að eins átt við karlmenn, enda styðst sá skilningur við fortíðina, þar sem karlmenn einir hafa hingað til haft aðgang að æðri skólum hér, að undanskildum læknaskólanum. Gerði eg því þessa breytingu og vona að háttv. deild álíti hana til bóta.