26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

51. mál, stofnun landsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Eg skal játa það, að eg bjóst við, að hvellur gæti orðið út af þessari tillögu á þingskj. 634, enda lítur út fyrir, að svo ætli að verða. Mér þykir leitt, hvernig háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) er haldinn. Það er eins og hann megi ekki sjá, að mikið og gott starf sé metið að verðleikum. Vitanlega skal eg viðurkenna, að deila má um það, hvort þetta ákvæði eigi að standa í þessum lögum, en að það sé hin minsta bending fyrir núverandi bankastjóra til að segja af sér, því mótmæli eg fyrir mína og nefndarinnar hönd, sem algerlega sagt út í bláinn. — Annars lítur út fyrir, að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hafi lesið frv. þetta eins og sagt er, að ein viss »persóna« lesi biblíuna, því ef hann les frumv. rækilega, þá trúi eg ekki öðru, en að hann átti sig betur á málinu.