20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1952)

93. mál, löggilding Viðey

Magnús Blöndahl:

Eg þykist ekki þurfa að mæla með breyt.till. á þskj. 491, því hún er í fullu samræmi við gerðir deildarinnar áður í þessu máli. Eg vil geta þess, að við prentunina féll úr einn stafur o, en það gerir nú hvorki til né frá. Eg ætla að láta mér nægja í bráð, að vísa til ræðu minnar við 1. umr. Annars lít eg svo á þetta, að réttast hefði verið að vísa því frá af þeirri ástæðu, að það sé ólöglega framkomið hér í deildinni. Þetta sama frumv. var áður hér fyrir þessari deild og var þá felt. Annars ætla eg ekki að vera að þrátta lengi um, hver rétturinn í þessu máli er, því sumir álíta það rétt og aðrir órétt. Ástæðurnar fyrir því að br.till. sé í alla staði réttmæt voru fluttar bæði af mér og öðrum áður fyr hér í deildinni og því engin þörf að taka þær upp aftur. Eg læt mér því að sinni nægja að mæla hið bezta með br.till., og treysti því, að hún verði samþ.