19.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1433 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Jónsson:

Því ber ekki að neita, að stjórnarskrá þessi felur í sér ýmsar umbætur frá því, sem áður hefir verið; þó finst mér, að hún fari heldur skamt í mörgum atriðum. — Það er mjög svo lofsvert, að stjórnin hefir fundið ástæðu til þess að afnema hina margumræddu og meðal þjóðarinnar miður vel kyntu stofnun, konungkjörnu þingmennina, enda má svo að orði komast með stofnunina þá, að hún hafi verið á meðan vært var og setið á meðan sætt var. Þegar nú þessi gamla stofnun er afnumin, þá hefði mér fundist réttara, að stjórnin hefði samtímis komið með tillögu um það að afnema deildaskiftinguna. — Því að í landi, þar sem hagar til eins og hjá oss, að enginn er stéttamunur, er tvískifting þingmanna hreinasti hégómi. — Íslendingar eru allir ein stétt; en það sem réttlætir tvískifting þinga annarsstaðar í heiminum er stéttamunurinn.

Hæstv. ráðherra virðist gera sér hugmynd um, að meiri trygging verði fyrir því, að þjóðkunnir menn og gætnir skipi efri deild, ef aldurstakmarkið er hækkað um 10 ár. Mér finst sú trygging nauðalítil, hvort maðurinn er 10 árum eldri eða yngri, enda geta menn verið þjóðkunnir af ýmsum ástæðum góðum og miður góðum. Mín einlæg sannfæring er sú, að deildaskiftingin ætti að afnemast með öllu.

Mér finst það vera vottur um framfaraviðleitni, að stjórnin vill veita konum kosningarrétt, en eg get ekki séð af hvaða ástæðum hún hefir ekki viljað taka það beint upp í sjálfa stjórnarskrána, en vera ekki að veita vilyrði fyrir að það verði. Það getur farið allavega um efndir á því, svo sem dæmin sýna, þar sem eru hinar mörgu fyrirheitisgreinar í grundvallarlögum Dana sumar óefndar enn eftir tvo mannsaldra.

Mín sannfæring er sú, að mesti hégómi sé að láta kynferði valda stjórnréttindamun, að annað kynið ætti eftir því að vera ver af guði gert.

Konum eru ætlaðar sömu skyldur og körlum, en þegar til réttindanna kemur, er alt öðru máli að gegna. — Það er vitanlegt, að margur hver karlmaður er ekki annarar handar maður við sumar konur, hvorki líkamlega né að andlegri atgervi, nema miður sé. — En þetta er, eins og margt annað, apað eftir löggjöf annara landa. Það hefir verið sagt, að kvenþjóðin hefði lítinn stjórnmálaþroska, en þá held eg að karlmennirnir sumir hverjir mættu stinga hendinni í sinn eigin barm og spyrja sjálfa sig, hvort þeir hafi þeim mun meiri þroska, að þeir einir séu færir til þess að ráða lögum landsins, enda er það vitanlegt, að marga skortir vit og þroska til þess að stjórn og löggjöf fari vel úr hendi.

Að lokum vil eg gera það að till. minni, að máli þessu verði vísað til sömu nefndar, sem kosin var til að íhuga sambandsmálið.