06.05.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

94. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður (Skúli Thoroddsen):

1. þm. S.-Múl. (J. J.) lét í ljósi óánægju sína yfir störfum nefndarinnar. Það er rétt, að nefndin hefir ekki gert breytingar við frumv., eða yfirleitt tekið það til nokkurar verulegrar íhugunar, en eg hefi fært rök að því, hvers vegna hún hefir eigi gert það. Alt fram að páskum gekk mestur tíminn í þref og þjark um sambandsmálið; en síðan hefir tíminn til nefndarstarfa verið naumar, vegna þingfunda, þó að vilji nefndarinnar hefði verið nægur, sem ekki var. Nefndin ætlaði sér aldrei að starfa af þeim ástæðum, sem eg hefi áður tekið fram.

Þm. S.-Þing. (P. J.) sagði, að nefndin hefði haft eins góðan tíma, eins og milliþinganefndir; en eg skil ekki, hvernig hann fer að tala af slíkri ósanngirni. Hann veit, að þm. eru hér á þinginu önnum kafnir við ýms störf, en milliþinganefndirnar geta hagnýtt allan tímann, til að starfa að þeim málum, sem þeim er ætlað að fjalla um.

Viðvíkjandi ræðu 1. þm. S.-Múl. (J. J.), vil eg taka það fram, að nefndin ætlaði sér aldrei að koma með neina speki. Hún vildi að eins benda á nokkur einstök atriði, sem stjórnarskrárbreytingin yrði fyrir hvern mun að lúta að, og það hefir hún gert. Hvað því viðvíkur, er þm. var að tala um, að fráfarandi stjórn hefði sýnt máli þessu mikla rækt, þá tel eg réttast, að þm. séu hverir öðrum einlægir, og segi hverir öðrum, sem þeim sýnist vera. — Fyrir mitt leyti, skal eg geta þess, að mér virðist mega líta á málið á þá leið, að þegar stjórnin sá, að hún yrði að fara frá, þá fór henni að skiljast, að heppilegt myndi vera, að nýjar þingkosningar færu sem fyrst fram, og þá var stjórnarskrárbreyting eini vegurinn, því yrði frumv. samþykt var skylt að rjúfa þingið og láta nýjar kosningar fram fara.

Að segja að meiri hlutinn sé móthverfur þeim umbótum, sem 1. þm. S.-Múl. (J. J.) mintist á, svo sem afnámi konungkjörinna þm., kosningarrétti kvenna o. fl., það er eigi svaravert. — Meiri hlutinn sér sig að eins, af þeim rökum, er eg gat í fyrstu ræðu minni, knúðan til þess að fresta framgangi málsins á þessu þingi, þar sem samþykt þess færði oss engu nær takmarkinu, og væri því að eins leikaraskapur, og bakaði þjóðinni óþarfa kosningabaráttu. En líti maður til þingsins 1907, er hægt að sjá, hvernig meirihlutinn, sem þá var, tók í stjórnarskrármálið, og því verður maður síður hrifinn af áhuga hans nú; annars efast eg ekkert um, að minni hlutinn hagnýti sér þessa þingsályktun, sem vopn á stjórnina, ef hún sinti henni að engu, og reyndist eins ófús á að efna til nýrra kosninga, eins og 1. þm. S.-Múl. (J.J.) gaf í skyn, að hún myndi verða. Minni hlutanum ætti því að þykja vænt um tillöguna.