08.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

67. mál, úrskurðarvald sáttanefnda

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Eins og háttv. deild mun sjá miðar frumv. þetta aðallega að því, að veita sáttanefndum úrskurðarvald með vissum skilyrðum í ýmsum smærri málum, til þess að minka þann kostnað og fyrirhöfn, sem rekstur slíkra mála hefir í för með sér, og gera aðganginn til að ná rétti sínum miklu léttari. Kostnaðurinn við að ná smáskuldum inn með málssókn, er oftast svo mikill, að margir kynoka sér við að leggja út í mál, hversu réttmætt sem það annars kann að vera, og rétturinn kemur þannig til í rauninni að rýma fyrir óréttinum, að eg nú ekki tali um, að kostnaður þessi getur líka lent óþægilega niður á skuldunautunum sjálfum, þeir geta oft orðið að borga meira í málskostnað, en skuldinni sjálfri nemur. Það er því sjálfsögð skylda löggjafarvaldsins að bæta úr þessum vandkvæðum, með því að gera meðferð slíkra mála svo óbrotna, einfalda og ódýra, sem mögulegt er. Sá er líka tilgangur þessa frumv. og eg vona því, að háttv. deild taki því vel.